133. löggjafarþing — 14. fundur,  18. okt. 2006.

fötluð grunnskólabörn.

103. mál
[14:05]
Hlusta

félagsmálaráðherra (Magnús Stefánsson) (F):

Hæstv. forseti. Fyrirspurn hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur varðar fötluð grunnskólabörn á aldrinum 10–16 ára. Með lengdri viðveru er átt við dægradvöl og aðstoð við heimanám sem veitt er grunnskólabörnum eftir að skólastarfi lýkur um kl. 1 og stendur til kl. 17 hvern skóladag. Fyrir liggur að hluti þeirra barna sem hér um ræðir nýtur þegar þjónustu ýmist hjá hagsmunasamtökum með greiðsluþátttöku ríkisins, hjá svæðisskrifstofum um málefni fatlaðra sem starfræktar eru á vegum ríkisins eða á vegum sveitarfélaga.

Varðandi yngri grunnskólabörnin á aldrinum sex til níu ára sem eru í fyrsta til fjórða bekk þá stendur þeim almennt til boða að fá þessa þjónustu hjá sveitarfélögum. Ekki skiptir þó máli hvort um fötluð eða ófötluð börn er að ræða.

Í 1. gr. laga um grunnskóla, nr. 66/1995, segir að sveitarfélögum sé skylt að halda skóla fyrir öll börn og unglinga á aldrinum 6–16 ára og í 27. gr. sömu laga segir að sveitarstjórn geti boðið grunnskólanemendum lengda viðveru utan daglegs kennslutíma. Í því felast engin sérstök tímamörk eða takmörk réttara sagt fyrir sveitarfélög hvað varðar umfang, form og fyrirkomulag þjónustu. Sveitarfélögum er falið að móta hana og útfæra. Í dag bjóða sveitarfélögin almennt upp á lengri viðveru fyrir grunnskólabörn á aldrinum sex til níu ára. Þá skiptir ekki máli hvort um fötluð eða ófötluð börn er að ræða. Þó liggur fyrir að erfiðleikar við mönnun á þjónustunni hafa sett hér strik í reikninginn.

Eins og skýrt kemur fram í 7. gr. laga um málefni fatlaðra, nr. 59/1992, skal ávallt leitast við að veita fötluðum þjónustu samkvæmt almennum lögum á sviði menntunar og heilbrigðis- og félagsþjónustu. Þá segir í athugasemdum með frumvarpi til laganna að einungis eftir að í ljós hafi komið að hinn fatlaði hafi þörf fyrir aðra þjónustu en þá sem rúmast innan almennra laga skuli honum veitt þjónusta samkvæmt lögum um málefni fatlaðra.

Hæstv. forseti. Í mars 2005 var skipaður starfshópur til þess að fjalla um lengda viðveru fatlaðra grunnskólabarna. Starfshópurinn var skipaður fulltrúum ráðuneyta og sveitarfélaga auk þess sem sérfræðingar frá Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins og Tryggingastofnun ríkisins og fulltrúi notenda komu að vinnunni. Starfshópurinn hélt alls 19 fundi og skilaði síðan af sér áfangaskýrslu með tillögum og greiningu hópsins þann 17. ágúst síðastliðinn. Starfshópurinn lagði til að gert yrði bráðabirgðasamkomulag milli ríkis og sveitarfélaga um að lengd viðvera fatlaðra grunnskólabarna yrði tryggð áfram. Samhliða yrðu lög um málefni fatlaðra endurskoðuð og settur yrði skýr rammi þannig að skilgreina mætti hlutverk og ábyrgð ríkis og sveitarfélaga enn betur þegar kæmi að lengri viðveru fatlaðra grunnskólabarna. Reynt var að komast að samkomulagi um kostnað og kostnaðarskiptingu verkefnisins og var af hálfu ríkisvaldsins lagt fram tilboð um framlag ríkisins til verkefnisins.

Tilboð ríkisins byggðist á tilteknu fjármagni auk þess að reiknuð voru með núverandi framlög ríkisins til þeirra sjálfseignarstofnana og hagsmunasamtaka sem sjá um þjónustu við fötluð grunnskólabörn og jafna má við lengda viðveru. Hið sama á við þá starfsemi sem svæðisskrifstofur um málefni fatlaðra veita og jafna má við lengda viðveru fatlaðra grunnskólabarna. Núverandi framlög til þessa kæmu þannig til frádráttar útreiknuðum greiðslum ríkisins til lögheimilissveitarfélags.

Sveitarfélögin hafa fram að þessu ekki viljað samþykkja þetta tilboð ríkisins en ég get upplýst hv. fyrirspyrjanda um það hér og nú að ég tel að lausn sé nú í sjónmáli. Ég hef litið á þetta mál sem forgangsmál sem okkur, bæði ríki og sveitarfélögum, beri að leysa. Ég hef þó ítrekað fundað með fulltrúum Sambands íslenskra sveitarfélaga vegna málsins bæði fyrrverandi og núverandi formönnum og óskað eftir ítarlegri upplýsingum af þeirra hálfu um hugsanlegan heildarkostnað.

Síðast í gær áttum við afar gagnlegan fund þar sem mikill samhljómur var um málið. Allir málsaðilar eru sammála um nauðsyn þess að úrræði þetta standi fötluðum unglingum og foreldrum þeirra til boða og mér finnst ófært að óljósar upplýsingar um kostnað og framboð á þörf og þjónustu í dag standi í vegi fyrir því að þeir sem það kjósi fái þessa þjónustu. Fyrir þann fatlaða og fjölskyldu hans skiptir engu máli hvaða opinber aðili veitir þjónustuna eða greiðir fyrir hana. Mestu skiptir að hún sé veitt þannig að fjölskyldan geti lifað sem eðlilegustu lífi í sínu samfélagi.

Hæstv. forseti. Ég er bjartsýnn á að gengið verði frá samkomulagi á milli ríkisins og sveitarfélaganna sem tryggir umrædda þjónustu fyrir fötluð grunnskólabörn innan skamms. Það verðum við einfaldlega að gera og til þess stendur fullur vilji beggja aðila. Það fullyrði ég.