133. löggjafarþing — 16. fundur,  19. okt. 2006.

geðheilbrigðisþjónusta við börn og unglinga.

[11:28]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin og undirtektir hv. þingmanna. Eins og fram kom í svari hæstv. ráðherra er þessi áætlun raunhæf. Það á að setja þessa áætlun í gang innan fjárhagsramma heilbrigðisstofnananna. Af því hef ég miklar áhyggjur, að hún sé svo raunhæf að hinn þröngi fjárhagsrammi heilbrigðisstofnananna sem eiga að koma að þessu máli, heilsugæslunnar, Miðstöðvar heilsuverndar barna, BUGL og Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri vonandi, sé slíkur að þær hafi ekki möguleika á að uppfylla góðan vilja ráðherra. Það gerist ekkert í þessum málum nema ráðherra sjái til þess og fylgi því eftir að fé fylgi. Þetta gengur ekkert öðruvísi. Ég hvet hæstv. ráðherra til að taka geðsvið Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri inn í myndina. Þar er rekin núna göngudeild. Landspítali – háskólasjúkrahús er í Reykjavík. Fjórðungssjúkrahúsið er á Akureyri. Þetta eru tveir stólpar meginsérfræðiþjónustu í landinu. Við eigum að efla fjórðungssjúkrahúsið á þessu sviði. Ég hvet hæstv. ráðherra að sjá til þess að deildinni verði gert mögulegt að leggja inn sjúklinga, sem sé koma á fót raunhæfri barna- og unglingageðdeild.

Hæstv. forseti. Við viljum koma að svo mörgu. Ég vil bara segja að lokum að hegðunar- og geðraskanir barna og unglinga á að taka alvarlega. Rannsóknir hafa leitt í ljós að alvarlegustu einkennin hafa veruleg áhrif og varanleg áhrif. Geðvernd og meðferðarúrræði geta þótt dýr en þau skila sér margfalt til baka. Það er ekki nóg að vera með góð áform, kynna aðgerðir (Forseti hringir.) og setja fram áætlanir ef þær stofnanir sem eiga að sinna verkefnunum er að sligast undan erfiðri fjárhagsstöðu í dag og það mun ekki batna (Forseti hringir.) ef þær fá fleiri verkefni.