133. löggjafarþing — 18. fundur,  1. nóv. 2006.

kaup ríkisins á hlut Reykjavíkur og Akureyrar í Landsvirkjun.

[13:42]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf):

Frú forseti. Ég ætla ekki að gera söluverðið að umtalsefni. Það hlýtur að vera þannig að það sé rétt vegna þess að allir aðilar, bæði seljendur og kaupendur, samþykkja það. Ég ætla ekki að gera það að umtalsefni og ekki gagnrýna það.

Ég hef sjálfur haft þá skoðun, virðulegi forseti, að sveitarfélög eigi ekki að vera í raforkugeiranum, hvorki framleiðslu né sölu, og þess vegna held ég að það sé ekkert að því að hlutur í Landsvirkjun sé seldur til ríkisins en gagnrýni það og tek ekki undir að fyrirtækið verði einhvern tíma selt einkaaðilum eða braskað með það eins og formaður Sjálfstæðisflokksins hefur m.a. gefið í skyn.

Virðulegi forseti. Það er annar þáttur sem ég vil draga inn í þessa umræðu og spyrja hæstv. iðnaðarráðherra út í og það er hvort kannað hafi verið gagnvart Íslendingum öllum hvernig eignarhlutur Reykjavíkurborgar í Landsvirkjun varð til. Verð ég þá fara aftur til seinni heimsstyrjaldarinnar og samnings sem Bandaríkjastjórn gerði með svokallaðri Marshall-aðstoð við Íslendinga alla, sama hvar á landinu þeir bjuggu, en hluti af þeim peningum var notaður til að byggja upp Sogsvirkjun sem svo rann inn í Landsvirkjun og þannig byrjaði eignarhlutur Reykjavíkurborgar að myndast. Það er þetta, virðulegi forseti, sem ég hef áður rætt á Alþingi og spurt um, sem ég gagnrýni og vil fá að vita hvort hafi verið kannað, þ.e. þessi eignarhlutur. Með öðrum orðum: Marshall-aðstoðin var fyrir Íslendinga alla. Ef hluti hennar hefur farið í að byggja Sogsvirkjun eins og sagt hefur verið og rétt er og hafi svo verið lagður inn sem eignarhlutur Reykjavíkurborgar í Landsvirkjun, var vitlaust gefið í upphafi. Þess vegna spyr ég hæstv. iðnaðarráðherra hvort þetta hafi verið kannað og hvort ekki sé svo að Íslendingar allir, jafnt úti á landi sem á höfuðborgarsvæðinu, eigi stóran hluta í því sem telst nú eignarhluti Reykjavíkurborgar í Landsvirkjun.