133. löggjafarþing — 18. fundur,  1. nóv. 2006.

fæðingarorlofsgreiðslur og umönnunarbætur.

104. mál
[13:58]
Hlusta

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. félagsmálaráðherra, Magnúsi Stefánssyni, fyrir að taka svona vel í þær breytingar sem við höfum verið að leggja margsinnis til og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir hefur vakið hér máls á. Þetta hefur verið ákaflega óréttlát regla, að fólk sem er með fötluð börn og ber mikil útgjöld vegna þess skuli ekki fá umönnunargreiðslur á sama tíma og fæðingarorlofsgreiðslur. Því það er auðvitað verið að greiða fyrir allt aðra hluti með umönnunargreiðslunum, verið er að greiða fyrir útgjöld vegna veikinda og fötlunar þessara barna.

Ég tel því að þetta sé tímamótayfirlýsing frá hæstv. ráðherra. Þessi óréttláta regla hefur verið allt of lengi í gildi og löngu tímabært að breyta þessu. Það eru að meðaltali 20 börn á ári og foreldrar þeirra sem lenda í þessu óréttlæti. Þetta er ekki dýrt fyrir samfélagið en fullkomlega réttlátt og löngu tímabært, eins og ég sagði áðan. Ég vil þakka fyrir þessa yfirlýsingu frá hæstv. ráðherra.