133. löggjafarþing — 18. fundur,  1. nóv. 2006.

miðaldra og eldra fólk á vinnumarkaði.

204. mál
[14:03]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil beina fyrirspurn til félagsmálaráðherra um miðaldra og eldra fólk á vinnumarkaði. Í fyrsta lagi spyr ég hæstv. ráðherra:

Hvað hefur verið gert til að framfylgja tillögum nefndar um aðgerðir til að bæta stöðu eldra fólks á vinnumarkaði, samanber skýrslu sem nefndin gaf ráðherra í nóvember 2004? Hvernig verður framfylgt fimm ára áætlun um aðgerðir sem nefndin lagði til?

Ég átti sæti í nefndinni sem fjallaði um málið en hún lauk störfum fyrir tveimur árum og þá átti að leggja fram ákveðna framkvæmdaáætlun til þess að bæta stöðu eldra fólks á vinnumarkaði.

Í öðru lagi:

Hversu miklu fé hefur verið varið til þessa verkefnis á árunum 2005, 2006 og hver eru áformin fyrir næsta ár? Hefur verið lagt sérstakt fjármagn í starfsmenntasjóð vegna þessa?

Ég spyr sérstaklega að því vegna þess að ég óttaðist að fjármagn til þess að bæta stöðu miðaldra fólks yrði bara tekið út úr starfsmenntasjóði en ekki yrði varið til þess sérstöku fjármagni. Ég spyr því sérstaklega um þetta en á það var lögð áhersla í nefndinni sem ég átti sæti í.

Í þriðja lagi:

Hyggst ráðherra beita sér fyrir að sett verði rammalöggjöf gegn mismunun vegna aldurs í starfi og á vinnumarkaði?

Um þetta var vissulega ágreiningur í nefndinni og fulltrúi Samfylkingarinnar, sem hér stendur, og fulltrúi Vinstri grænna ásamt fulltrúum BSRB og ASÍ lögðu til að sett yrði löggjöf um þetta efni.

Að öðru leyti var nefndin sammála um að ráðist yrði í þessa fimm ára framkvæmdaáætlun og að auknu fé yrði varið til þess að bæta stöðu þessa hóps á vinnumarkaði og ég vænti þess að ráðherra hafi fylgt áliti nefndarinnar. Ég spurði forvera hæstv. ráðherra um þetta mál á síðasta þingi. Þá var aðeins byrjað að ýta úr vör þeim tillögum sem nefndin lagði til en mér fannst þá að töluvert langt væri í land að við sæjum einhvern árangur af starfi nefndarinnar sem sýndi sig í því að bæta stöðu miðaldra og eldra fólks á vinnumarkaði. Þess vegna er ég að vonast til að málið sé komið miklu lengra og að við getum farið að sjá árangur í þessu efni.

Það er nefnilega svo að staða margra sem eru komnir á miðjan aldur og þar yfir er afleit á vinnumarkaði. Þetta fólk á oft undir högg að sækja að fá vinnu ef því hefur verið sagt upp störfum af einhverjum ástæðum, t.d. ef fyrirtæki leggjast af o.s.frv., þá er oft erfitt fyrir miðaldra fólk að fá starf að nýju á vinnumarkaðnum. Það þarf að verða hugarfarsbreyting vegna þess að þetta fólk býr yfir vinnukrafti sem er nauðsynlegt fyrir þjóðfélagið að nýta. Við eigum að greiða götu þess eins og lagt var til í nefndinni með þeim tillögum sem þar eru vegna þess að ég er sannfærð um að þær munu skila árangri verði þeim hrundið í framkvæmd.