133. löggjafarþing — 18. fundur,  1. nóv. 2006.

flutningur verkefna frá ríki til sveitarfélaga.

151. mál
[14:47]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Aldrei þessu vant hef ég miklar áhyggjur af Framsóknarflokknum. Hv. þm. Dagný Jónsdóttir sagði að hún vildi að málefni fatlaðra og aldraðra yrðu flutt frá ríki til sveitarfélaga. En það er eins og hv. þingmaður hafi ekki talað við hæstv. félagsmálaráðherra. Hvað sagði hann? Jú, um málefni fatlaðra: Þegar og ef. Um málefni aldraðra: Hefja skal skoðun. Með öðrum orðum, það kemur fram að jafnvel þó Framsóknarflokkurinn, hinir almennu þingmenn séu sammála okkur í Samfylkingunni og stjórnarandstöðunni um að a.m.k. þessa málaflokka eigi að flytja til ríkisins þá hefur hæstv. ráðherra einhverja allt aðra skoðun eða kannski enga skoðun.

Hæstv. ráðherra sagði að afstaða sveitarstjórnarmanna skipti mestu máli. Rétt er það, hún skiptir miklu. En það skiptir líka miklu að hæstv. ráðherra hafi einhverja skoðun á þessu. Er ekki mál til komið að hann taki á sig rögg áður en hann verður fluttur með valdi úr ráðuneytinu af kjósendum og lýsi þeirri skoðun?