133. löggjafarþing — 19. fundur,  2. nóv. 2006.

útvarpslög, prentréttur og samkeppnislög.

58. mál
[15:26]
Hlusta

Eiríkur Jónsson (Sf):

Herra forseti. Ég fagna því fyrst og fremst að þetta frumvarp sé komið hér fram og til umræðu á þinginu loksins. Ég ætla svo sem ekki að fjalla ítarlega um einstaka þætti þess en ég vil samt í nokkrum orðum leggja áherslu á mikilvægi þess að meginstefið í frumvarpinu nái fram að ganga.

Ég tel að það grunnstef sem er í frumvarpinu fái mikla stoð í nútímaviðhorfum til tjáningarfrelsis. Það er enginn vafi á því að ein helsta ástæða þess að lýðræðisríki verja tjáningarfrelsið er sú að það tryggir opna, gagnrýna og lýðræðislega umræðu um þau málefni sem varða almenning. Þennan tilgang má alveg ótvírætt ráða af lögskýringargögnum með stjórnarskránni, dómaframkvæmd, skrifum fræðimanna og annarra þeirra sem um þetta hafa ritað. Ekki síður má rekja þennan tilgang af öllum þeim gögnum sem frá Evrópuráðinu hafa komið, af 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, dómaframkvæmd Mannréttindadómstólsins og annarra stofnana í Evrópu.

Það liggur alveg fyrir að grundvallarástæða tjáningarfrelsisverndarinnar hérna í Evrópu er þessi samfélagslega þörf fyrir opna og gagnrýna lýðræðisumræðu. Þetta er að sumu leyti talsvert ólíkt, en tíðkast t.d. í Bandaríkjunum þar sem mun meiri áhersla er lögð á þau einstaklingsbundnu gæði sem í tjáningarfrelsinu felast, hvernig menn þroskast á því að tala og hlusta. Hér er meginröksemdin fyrir tjáningarfrelsinu augljóslega þeir lýðræðislegu hagsmunir sem felast í opinni og gagnrýninni umræðu.

Af þessum markmiðum leiðir að á ríkinu hvílir ekki bara neikvæð skylda. Með öðrum orðum er ekki bara verið að slá á hendurnar á ríkinu, að það megi ekki takmarka tjáningu, heldur felast einnig í tjáningarfrelsinu ákveðnar jákvæðar skyldur til að tryggja að þetta markmið um opna, lýðræðislega og gagnrýna umræðu nái fram að ganga, að tjáningarfrelsið fái þannig notið sín.

Þannig hefur t.d. upplýsingaskylda stjórnvalda verið rökstudd með beinum hætti með vísan til þessara mannréttindaákvæða. Það er skemmst að minnast hæstaréttardómsins sem féll 14. mars 2002 þar sem beinlínis var vísað til tjáningarfrelsisákvæða stjórnarskrárinnar til stuðnings því að Öryrkjabandalag Íslands ætti að fá aðgang að tilteknum gögnum, sem sagt minnisblaði sem kom ofan úr forsætisráðuneyti. Ég efast ekki um að þingheimur muni eftir þessu máli.

Þarna er sem sé greinilega um jákvæðar skyldur á grundvelli þessara ákvæða að ræða. Það má færa að því góð rök að í þessum jákvæðu skyldum ríkisins, á grundvelli þessara mannréttindaákvæða, felist m.a. sú skylda að tryggja tiltekna fjölbreytni í fjölmiðlun. Enda leiðir það í raun af meginmarkmiðinu um að tryggja opna og gagnrýna umræðu að tiltekin fjölbreytni þarf að vera til staðar. Markmiðið næst einfaldlega ekki með of mikilli einsleitni á fjölmiðlamarkaði.

Enda er þess réttilega getið í frumvarpinu að ráðherranefnd Evrópuráðsins hefur lagt áherslu á þessa skyldu. Ég fagna því auðvitað að núverandi ríkisstjórn sem oft kennir sig við frjálshyggju skuli leggja þessa áherslu á þessar jákvæðu skyldur sem í tjáningarfrelsinu felast. Ég tel að þarna sé réttilega verið að leggja áherslu á að það verði að tryggja fjölbreytni í fjölmiðlun með takmörkun á eignarhaldi. Ég legg áherslu á það líka að í þessu felst fleira. Ef þetta markmið á að ná fram að ganga um opna, lýðræðislega og gagnrýna umræðu er einnig mjög mikilvægt að tryggja Ríkisútvarpið. Ég tel að með nákvæmlega sama hætti og við getum rökstutt meginstefið í þessu frumvarpi getum við rökstutt að hér verði að vera öflugt ríkisútvarp sem sé miðpunktur umræðu um samfélagsmál. Þess vegna legg ég mikla áherslu á að þingheimur hafi nákvæmlega þessi sjónarmið, þessi grunnsjónarmið að baki tjáningarfrelsinu og þessu frumvarpi, í huga þegar farið verður að ræða hérna málefni Ríkisútvarpsins og vinni að því að styrkja það sem allra mest. Slíkt er ákaflega mikilvægt.

Ég ætla mér ekki á nokkurn hátt að rekja einstök atriði frumvarpsins. Það má án efa hafa skiptar skoðanir um einstakar útfærslur í því. Hv. þm. Mörður Árnason hefur tæpt hér á ýmsum atriðum og án efa má hafa hér góðar rökræður um það t.d. hversu há prósentutalan nákvæmlega á að vera eða með hvaða öðrum hætti eigi að takmarka þetta eignarhald.

Ég vil bara leggja áherslu á það hér að ég tel að þetta grundvallarstef um að takmarka eignarhald á fjölmiðlum með einhverjum hætti sé mjög nauðsynlegt og ég er innilega sammála þessu grundvallarstefi. Ég fagna þessu frumvarpi að því leyti að ég tel það mjög vandlega unnið. Það verður að segjast að það er allt annar bragur á málinu núna en var árið 2004.

Fjaðrafokið sem varð hérna á árinu 2004 þekkja auðvitað allir. Það var að öllu leyti réttmætt enda var gengið fram af slíkum yfirgangi og slíkri hörku af hálfu ríkisstjórnarinnar að þjóðinni hreinlega ofbauð. Ég hef hins vegar tilfinningu fyrir því að það sem þjóðinni hafi ofboðið fyrst og fremst hafi verið sú aðferð sem notuð var, sá yfirgangur sem þá ríkti, en ekki í sjálfu sér grundvallarhugmyndin að baki frumvarpinu. Ég held að flestir hér inni og flestir þjóðfélagsþegnarnir geti verið sammála um að það þurfi að takmarka þetta með einhverjum hætti. Það er helst að harðasta frjálshyggjufólk, held ég, geti mælt því á móti.

Ég fagna því sem sagt að hér virðist þokast í átt til ákveðinna sátta og að sátt hafi náðst þarna um grundvallaratriðin. Ég hvet auðvitað þingmenn til að halda þessari samvinnu áfram og að menn láti kannski ekki sárin frá 2004 rugla sig um of. Sú orrahríð er búin. Þá orrahríð vann stjórnarandstaðan og þjóðin. En hún skiptir ekki máli hér lengur. Þótt vissulega megi deila enn þá um einstök efnisatriði frumvarpsins er grunnstefið mjög gott. Frumvarpið er vandlega unnið. Ég vonast til þess að sátt náist mjög fljótlega um þetta fjölmiðlafrumvarp og að það nái fram að ganga því að ég tel það mjög nauðsynlegt.