133. löggjafarþing — 20. fundur,  3. nóv. 2006.

niðurskurður á framlagi til verknáms.

[13:33]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Ég kveð mér hljóðs um störf þingsins í tilefni af bréfi sem okkur þingmönnum Norðvesturkjördæmis barst í gær. Það er ákall frá kennurum verknámsdeilda fjölbrautaskólanna í kjördæminu, þ.e. á Akranesi, Ísafirði og Sauðárkróki, vegna niðurskurðar á framlögum til verknáms í framhaldsskólum landsins. Þessi niðurskurður bitnar harðast á minni skólum á landsbyggðinni þar sem iðnnámið er einn mikilvægasti þátturinn í námsframboðinu. Í bréfi kennaranna segir, með leyfi forseta:

„Iðnnám er í eðli sínu dýrt nám. Nemendur eru vegna öryggissjónarmiða fáir og aðstaða og búnaður dýr. Nú þegar á iðnnám undir högg að sækja í þessum skólum. Nái þessi niðurskurður fram að ganga er augljóst að framhaldsskólar í kjördæminu verða að skera niður í iðngreinum og jafnvel að fella þær út.“

Á fundi fjárlaganefndar með fulltrúum menntamálaráðuneytisins í morgun og einnig fulltrúum menntamálanefndar kom fram að fulltrúar menntamálaráðuneytisins höfðu í tillögum sínum gert ráð fyrir að 500 millj. kr. þyrfti til viðbótar á næsta ári til framhaldsskólanna samkvæmt gildandi reiknilíkani um kostnað og einnig samkvæmt spá þeirra um nemendafjölda. Svar fjármálaráðuneytisins var hins vegar að í stað 500 millj. kr. fengi framhaldsskólinn einungis 200 millj. kr. og yrði fjármagnið að skiptast á skólana samkvæmt því. Fjárlagaramminn væri sjálfur samkvæmt ákvörðun ríkisstjórnarinnar og því á ábyrgð hennar.

Frú forseti. Ég vek athygli á þessu bréfi kennaranna og skora á meiri hluta Alþingis að beita sér fyrir því að þessi niðurskurður verði leiðréttur.