133. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2006.

lækkun virðisaukaskatts á geisladiskum.

[15:29]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Ég kveð mér hér hljóðs til að inna hæstv. fjármálaráðherra eftir afstöðu hans til lækkunar virðisaukaskatts á íslenskri tónlist, þ.e. á geisladiskum. Ég vil líka segja að ég fagna þeim áformum sem hæstv. ríkisstjórn hefur lýst í þá veru að lækka virðisaukaskatt á bókum eins og ýmsum öðrum varningi.

Nú er það svo að bækur eru í harðri samkeppni við geisladiska. Þegar í dag liggur fyrir að geisladiskar eru með 24,5% virðisaukaskatt en bækur með snöggtum minna. Nú á að lækka þær niður í 7%. Þetta þýðir að það er enn verið að skekkja samkeppnisstöðu íslenskrar tónlistar frá því sem er. Ég vil að það komi alveg skýrt fram að það er afstaða mín og Samfylkingarinnar að við teljum að það eigi að hygla og hlúa að íslenskri menningararfleifð eins og hún birtist í bókum og rituðu máli með því að hafa hagstæðara skatthlutfall á henni. Hið sama á líka að gilda um þann hluta menningararfleifðarinnar sem felst í tónlistinni.

Þess vegna langar mig, frú forseti, til að spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvort hann telji ekki rétt, eins og Samfylkingin, að fella geisladiska í sama flokk og bækur og hafa þá 7% virðisaukaskatt á því líka?