133. löggjafarþing — 23. fundur,  8. nóv. 2006.

frumvörp um eignarhald orkufyrirtækja.

[12:08]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf):

Virðulegi forseti. Hér er tekið upp mjög sérstakt mál. Vakin hefur verið athygli á hvað kom fram í svari hæstv. ráðherra hér fyrir um viku síðan og svo því sem boðað var á blaðamannafundi í gær varðandi Rarik, Orkubú Vestfjarða og Landsvirkjun. Auðvitað er, virðulegi forseti, þarna verið að láta Landsvirkjun eignast þessi fyrirtæki til þess að lappa upp á fjárhaginn. En það sem meira er um vert er að þegar maður hugsar til fyrirrennara hæstv. ráðherra, fyrrverandi iðnaðarráðherra Valgerðar Sverrisdóttur, þá hefur maður mestar áhyggjur af því sem gerist í iðnaðarráðuneytinu og gert er þar og ráðherrar koma með hingað stundum inn í þingið. Er ég þá að minna á ýmis axarsköft fyrrverandi iðnaðarráðherra. Hún hefur þó mátt eiga það að hún hefur yfirleitt komið á eftir og beðist afsökunar á orðum sínum og rangtúlkunum. Nægir þar til dæmis að nefna nýjasta dæmið, frumvarpið um jarðefni og auðlindir í jörðu. Hérna kemur þetta svo núna og er töluvert á skjön við það sem hæstv. ráðherra hefur áður sagt.

Það kemur líka fram í þessu fréttaviðtali að ráðherrann segir að gera megi ráð fyrir að með þessu fyrirkomulagi megi ná fram margvíslegri hagræðingu í rekstri fyrirtækjanna þriggja sem sameiginlega verða yfirgnæfandi stærsta orkufyrirtæki landsins. Þau eru sannarlega rétt þessi síðustu orð og vafalaust má ná fram hagræðingu í rekstri fyrirtækjanna. Þess vegna vil ég spyrja hæstv. iðnaðarráðherra: Hvað á nú að gera í sambandi Rarik og Orkubú Vestfjarða? Eru kannski einhverjar uppsagnir og lokanir á starfsstöðvum þessara stofnana í bígerð? Er kannski líka, virðulegi forseti, hæstv. iðnaðarráðherra og iðnaðarráðuneytið búin að gleyma því að hann fer líka með málefni landsbyggðarinnar og byggðanna?