133. löggjafarþing — 23. fundur,  8. nóv. 2006.

frumvörp um eignarhald orkufyrirtækja.

[12:10]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (F):

Virðulegi forseti. Þegar við settum á Alþingi nýja löggjöf um orkumarkaðinn var ákveðið að stíga það skref að taka upp samkeppni á framleiðslustigi. Til þess að það megi verða að veruleika er nauðsynlegt að ríkisvaldið beiti sér fyrir því að starfandi séu nokkur fyrirtæki á því sviði að afla orku, framleiða og selja. Því er ákaflega óheppileg þróun að ríkisvaldið skuli hafa markað þá stefnu að sameina öll fyrirtæki í þess eigu á þessu sviði í eitt fyrirtæki og því miður er þegar búið að stíga það skref að taka allar eigur úr Orkubúinu og Rarik og færa í skjól Landsvirkjunar. Það hefði verið miklu heppilegra ef ríkissjóður hefði stutt Landsvirkjun beint vegna framkvæmdanna austur á landi og farið inn á þá braut sem nýja löggjöfin markar að styrkja fyrirtæki annars staðar á landinu eins og í Norðvesturkjördæmi til þess að standa að framþróun í atvinnulífi á þeim svæðum í skjóli öflugs eigin fjár og þess styrks sem það veitir. Ég vænti þess og vona að hæstv. ríkisstjórn sjái að sér í þessum málum og snúi af þeirri braut sem mörkuð var á sínum tíma og komi til þeirra sjónarmiða sem ég tala fyrir í þessum efnum.