133. löggjafarþing — 23. fundur,  8. nóv. 2006.

útsendingar svæðisútvarpsins á Austurlandi.

125. mál
[12:28]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Ég vil í upphafi svars mín til hv. þm. Kristjáns Möllers taka undir með honum að svæðisstöðvarnar um land allt eru mikilvægur liður í þjónustuhlutverki Ríkisútvarpsins og uppfylla m.a. þær kröfur sem við gerum til Ríkisútvarpsins varðandi það hlutverk sem fellur undir almannaþjónustuna.

Hv. þingmaður spyr mig eftirfarandi spurningar: Eru uppi áform um að sent verði út og sagðar fréttir alla virka daga hjá svæðisútvarpinu á Austurlandi?

Ríkisútvarpið hefur upplýst að svæðisútvarp Ríkisútvarpsins á Norðurlandi sé nú sent út alla virka daga og m.a. aðgengilegar fréttir á netinu, eins og menn vita, og fullur áhugi sé fyrir því að svo verði einnig gert í öðrum landshlutum, þar á meðal hjá svæðisútvarpinu á Austurlandi.

Þetta hefur þegar verið rætt innan Ríkisútvarpsins enda það að sjálfsögðu liður í því að geta veitt enn betri þjónustu. Að sögn Ríkisútvarpsins verða hins vegar ákvarðanir í þessa átt fyrst teknar þegar ljóst verður hvert framtíðarrekstrarform Ríkisútvarpsins í heild verður. Ég tel mikilvægt að benda á í þessu sambandi að í drögum að samningi um útvarpsþjónustu í almannaþágu sem er fylgiskjal með frumvarpi til laga um breytingu á rekstrarformi Ríkisútvarpsins er sérstaklega kveðið á um það í 3. gr. samningsins að Ríkisútvarpið skuli bjóða upp á svæðisbundnar útsendingar á efni, þar með taldar fréttir, til að þjóna betur íbúum á landinu öllu.

Það er því skýr og mikill vilji, bæði af hálfu RÚV og stjórnvalda, að fjölbreytt og öflugt svæðisútvarp sé og verði hluti af almannaþjónustuhlutverki Ríkisútvarpsins. Í þessu tilfelli, hæstv. forseti, tel ég rétt að hv. þm. Kristján Möller styðji það frumvarp sem við höfum rætt hér lengi, mikið og vel sem er að breyta Ríkisútvarpinu í ohf.