133. löggjafarþing — 23. fundur,  8. nóv. 2006.

réttargeðdeild að Sogni.

162. mál
[15:11]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka þær ágætu umræður sem hér hafa orðið um starfsemina á Sogni. Það er alveg ljóst að stefnan er sett á það að byggja nýtt hús upp á staðnum og nýta þá núverandi húsnæði í svokallaða stoðþjónustu, skóla, tómstundastarfsemi og ýmislegt annað. Ég get bent á að nýlega tók einn vistmaðurinn stúdentspróf á Sogni. Það fer fram skólastarfsemi þar í dag en aðstaðan er ekki mjög góð eins og stendur og þyrfti að bæta hana.

Til stendur að iðjuþjálfun hefjist á Sogni og ef ég man rétt á hún að hefjast um áramótin, þannig að það er í farvegi. Við erum því að bæta úr starfseminni sem fyrir er. Ef ég man rétt, ég er nýbúin að fara yfir þetta í ráðuneytinu, erum við nú þegar komin með fjármagn til að hefjast handa við undirbúning hönnunar og sú vinna er að fara af stað en hún tekur nokkurn tíma. Ég á því ekki von á að hafnar verði framkvæmdir á næsta ári. Ég held að það sé ekki fyrr en árið þar á eftir í fyrsta lagi sem við erum að tala um það. Það ræðst auðvitað af fjárveitingu hverju sinni. En undirbúningurinn er mjög mikilvægur og við erum nú þegar með fjármagn sem ég tel að muni duga til að fara af stað með undirbúningsvinnu að nýju húsnæði. En þetta er að sjálfsögðu mjög dýrt húsnæði, það er svo sem alltaf afstætt hvað er dýrt og hvað ekki í þessu sambandi. Við verðum að búa vel að þeim einstaklingum sem vistast á réttargeðdeildinni, en heildarkostnaður er 600–700 millj. kr. Þetta verður því mikilvægt verkefni að fjármagna til að geta hafið framkvæmdir. Ég tel að við munum klára hönnun á næsta ári en ég efast um að framkvæmdir hefjist á næsta ári.