133. löggjafarþing — 25. fundur,  13. nóv. 2006.

siglingavernd.

238. mál
[19:56]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég er sammála hv. þm. Guðmundi Hallvarðssyni um þau atriði sem hann lagði áherslu á, að samræma og tengja saman þá aðila sem koma að björgunar- og verndarstörfum. Ég tel að á margan hátt hafi verið unnið vel í því á undanförnum árum, að samræma það í sameiginleg viðbrögð.

Lengi má gott bæta. Við heyrðum hvernig það gekk fyrir sig þegar búist var við því fyrir skömmu að flugvél gæti lent í miklum erfiðleikum, væri að lenda á Keflavíkurflugvelli og gæti lent í sjónum. Þá fór boðunarkerfið allt meira og minna í handaskol, a.m.k. fór það töluvert öðruvísi en menn vildu að það virkaði. Sem betur fer var ekki sú hætta á ferðum sem menn óttuðust þannig að það kom ekki að sök.

Þá verð ég aftur að vara við því þegar verið er að einkavæða, bjóða út og selja í hendur óskyldum aðilum einstaka framkvæmda- eða rekstrarþætti í öryggiskerfinu. Það býður hættunni heim enn frekar.

Í dæminu sem ég vitnaði til frá í haust, þegar strengur fór og vaktstöð siglinga og öryggiskerfið reyndar líka, útvarp og sjónvarp og annað, datt út um stóran hluta landsins þá bjargaði NMT-krefið miklu og það að ekkert kom fyrir. Það var gott veður og ekkert kom fyrir.

En það dæmi sýnir að eitthvað er að og í þeirri umræðu kom fram að upp væri komin býsna mikil flækja af opinberri þjónustu, opinberum rekstri, og hins vegar einkavæddum þáttum (Forseti hringir.) sem voru hluti af þeirri þjónustu sem þarna átti að vera í viðbragðsstöðu.