133. löggjafarþing — 25. fundur,  13. nóv. 2006.

siglingavernd.

238. mál
[20:06]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Ég átti nú ekki von á því að þetta væri svona viðkvæmt af hálfu hæstv. ráðherra þó að hér væri lögð áhersla á að fara mjög rækilega í gegnum uppbyggingu og rekstur á því öryggiskerfi sem við fjöllum hér um og er að baki þessara laga, en þar er um að ræða m.a. Neyðarlínuna, vaktstöðvar siglinga og önnur fjarskiptafyrirtæki sem koma að því öryggisneti sem er afar mikilvægt að sé vel byggt upp. Okkur greinir auðheyrilega á og það er pólitískur ágreiningur á milli mín og okkar flokks, Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og hæstv. samgönguráðherra og Sjálfstæðisflokksins. Við teljum að það eigi ekki að einkavæða öryggismál, við teljum að það eigi ekki að einkavæða grunnalmenningsþjónustu sem allir aðilar þurfa að eiga aðgang að. Það er síðan allt annað hvað er rekið sem atvinnurekstur á samkeppnisgrunni þar sem samkeppni er fyrir hendi og ekki er um grunnalmannaþjónustu að ræða, okkur greinir þarna á. Hæstv. ráðherra finnst allt í lagi einkavæða hluta af öryggisþjónustunni, hæstv. ráðherra finnst allt í lagi að einkavæða grunnþjónustu fjarskiptanna. Ég er bara ekki á sama máli, okkur greinir þar á og hefur gert það á undanförnum árum.

Hæstv. ráðherra virðist vera að sækja fyrirmyndir til Tyrklands eða Rússlands um hvernig fjarskiptamálum sé háttað þar — það má vel vera að það sé orðið mikilvægt — en meðan Landssíminn var í eigu þjóðarinnar þá var það keppikefli að byggja upp þjónustu um allt land á jafnræðisgrunni og þó svo að það tækist ekki alveg þá var það keppikefli og var gert. Kostnaður við fjarskiptaþjónustu, við símakostnað hér á landi var með því lægsta fyrir notendur sem gerðist í Evrópu. En varðandi þær fyrirmyndir sem hæstv. ráðherra var að vitna til, í Tyrklandi eða Sovétríkjunum, þá þekki ég ekkert til þar og er ekki svona upptekinn af því eins og hæstv. ráðherra er. Ég hugsa nú bara um íslenska hagsmuni hvað fjarskiptamál varðar og almenning í landinu, það eru mín hagsmunamál. Auðvitað vorkenni ég öðrum þjóðum ef fjarskiptakerfi þeirra er mjög lélegt, en við þurfum þá a.m.k. ekki að vera að flytja hingað inn kerfi sem hefur reynst þeim mjög erfitt.

Hæstv. ráðherra var að tala um að það ætti að leysa fjarskiptamál og öryggismál í landinu á samkeppnisgrunni en ég er ekkert búinn að sjá að fjarskiptamál á Vestfjörðum, Norðurlandi, Norðausturlandi og úti um hinar dreifðu byggðir leysist á grunni frjálsrar samkeppni. Það má vel vera að í Reykjavík og hér á höfuðborgarsvæðinu geri það það. Það hefur þó sýnt sig að verð á þessari þjónustu hefur snarhækkað á síðastliðnum þrem árum síðan þetta var einkavætt. Það er það eina sem hefur komið rækilega í ljós og við erum núna að sigla hratt fram úr öðrum þjóðum hvað fjarskiptakostnað, hvað símakostnað varðar, samanber dæmið um farsímaþjónustu sem nýlega kom fram í skýrslu frá Póst- og fjarskiptastofnun, að mig minnir. Það er því lítið að sækja í það að fara í það kerfi sem hæstv. ráðherra var að vitna til og var að aðhyllast í Sovétríkjunum eða Tyrklandi hvað þetta varðaði.

Það er alveg sama hvað hæstv. ráðherra er hrifinn af einkavæðingu á fjarskiptakerfinu, á Símanum og öryggismálum úti um land, þá er ég þeirrar skoðunar að það sé rangt og grunnalmannaþjónusta eins og fjarskipti eigi að vera rekin sem þjónusta, byggð upp um allt land, þannig að allir hafi sem jafnastan aðgang að á jafnréttisgrunni bæði hvað varðar verð og gæði. Og við vitum það ósköp vel að þannig verður það ekki í frjálsri markaðshyggju eða frjálsri samkeppni, það vita íbúar þessa lands. Það er því alveg sama hvað hæstv. ráðherra dásamar einkavæðinguna í grunnfjarskiptakerfi þjóðarinnar í almannaþjónustunni þá held ég að fólk sjái raunveruleikann vel.

Hins vegar tel ég að þetta frumvarp sé í grunninn eðlilegt frumvarp og að þau atriði sem þar eru rakin séu í hæsta máta eðlileg. Ég á sæti í hv. samgöngunefnd og nefndin mun að sjálfsögðu reyna að fá sem gleggstar upplýsingar sem liggja að baki þessu öryggiskerfi sem frumvarpið byggir á. Ég held að það hljótum við öll að vera sammála um.