133. löggjafarþing — 26. fundur,  14. nóv. 2006.

fjáraukalög 2006.

47. mál
[19:24]
Hlusta

Guðjón Ólafur Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það vakti athygli mína að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði að það þyrfti tekjur til að standa undir öflugu velferðarkerfi. En hvað svo, hæstv. forseti? Þær tekjur mega ekki koma af stóriðjuframkvæmdum og nú mega þær tekjur ekki heldur koma af starfsemi viðskiptabankanna. Fjármálastarfsemi á Íslandi er orðin stærri þáttur í íslensku efnahagslífi en sjávarútvegur. Hver eru þá viðbrögð hv. þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs? Jú, nú eru allir orðnir svo ofboðslega ríkir á fjármálamarkaði. Nú eru allir orðnir þetta fína þotulið sem er að græða peninga og auðvitað má enginn græða peninga. Hver er þá lausnin? Hún er sú að senda eigi bankana úr landi. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon getur ekki hlaupið undan þessum ummælum hv. þm. Ögmundar Jónassonar. Hv. þm. Ögmundur Jónasson sagði að sér væri engin eftirsjá í bönkunum úr landi.

Hingað til hafa menn verið að berjast fyrir því að bankarnir hafi höfuðstöðvar sínar hér á landi. Hvað halda menn að gerist þegar hv. þm. Ögmundur Jónasson, viðskiptaráðherraefni hinnar sameinuðu stjórnarandstöðu, leggur það til að bankarnir flytji úr landi? Ætli það sé gæfulegt fyrir íslenskt efnahagslíf, hæstv. forseti? Hvar ætlar hv. þingmaður þá að ná í tekjurnar ef þær mega hvorki vera af stóriðjunni og heldur ekki af fjármálastarfsemi í landinu?