133. löggjafarþing — 30. fundur,  20. nóv. 2006.

Landsvirkjun.

364. mál
[17:22]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er enginn vandi fyrir mig að lýsa því yfir að það eigi að selja RÚV. Ég skil bara ekki í því að nokkur maður vilji að ríkið standi í fjölmiðlarekstri. Ég skil það ekki. En það er margt sem maður ekki skilur og maður verður bara að kyngja því.

En varðandi greiðslur til lífeyrissjóða opinberra starfsmanna þá er engu að síður verið að greiða inn fjármuni, 30 milljarða, 27 milljarða til Reykjavíkurborgar sem renna til lífeyrissjóðsins til að greiða laun opinberra starfsmanna. Þeir sem njóta þess eru 1.500, svona um það bil, eftir minni. Það getur verið að það muni einhverju. En það eru þá um 20 millj. kr. á mann sem hver þeirra nýtur. Það þýðir að þeir sem eru með lífeyrisréttindi fá núna greidd lífeyrisréttindi upp á 20 millj. kr. á mann. Í staðinn fyrir að allir Reykvíkingar njóti þessa, sem eiga jú Landsvirkjun eða svo er sagt, er gerð upp skuld við opinbera borgarstarfsmenn sem ekki hefur verið gert hingað til.

Nú vill svo til að hjá ríkinu hafa þessar skuldbindingar vaxið þvílíkt síðustu fimm eða tíu árin síðan aðlögunarsamningarnir voru gerðir, sem ég barðist mikið fyrir á sínum tíma, að öll sala á ríkisfyrirtækjum síðan, Síminn, bankarnir og allt það, hefur ekki dugað til að greiða hækkun á skuldbindingum. Þannig má segja að ríkisstarfsmenn hafi hirt öll ríkisfyrirtæki sem seld hafa verið hingað til.