133. löggjafarþing — 31. fundur,  21. nóv. 2006.

vatnstjón á mannvirkjum á Keflavíkurvelli.

[13:37]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Manni hlaut náttúrlega að bregða mjög í brún þegar fréttir bárust af þessu í gærkvöldi. Myndirnar sem við sáum í sjónvarpinu af þessum íbúðum voru vægast sagt skelfilegar.

Þetta er vítavert kæruleysi og ég held að við hljótum að gera kröfu um það að hér verði látin fara fram lögreglurannsókn á því hvað virkilega fór úrskeiðis. Við þurfum að gera okkur fulla grein fyrir því hvað gerði það að verkum að þessi verðmæti fóru svona í súginn. Var hér um að ræða einhver tæknileg mistök? Var hér hreinlega um að ræða vítavert kæruleysi? Þetta verðum við að fá botn í. Það dugar ekki að hæstv. utanríkisráðherra komi upp í ræðustól og biðjist afsökunar á þessu. Við verðum að fá þetta á hreint.

Ég leyfi mér að andmæla því að þetta séu eitthvað öðruvísi hús en önnur hús á Íslandi. Þau eru það ekki. Við þingmenn Suðurk. vorum um daginn á ferð um flugvallarsvæðið og keyrðum m.a. fram hjá þessum blokkum. Okkur var tjáð af fulltrúum sem sjá um þessi mannvirki að þessi hús væru í engu frábrugðin íslenskum húsakosti að öðru leyti en því að þarna væri öðruvísi rafmagn en í íslenskum húsum. Það eina sem þyrfti að gera til að gera þessi hús byggileg fyrir Íslendinga væri að breyta rafmagninu og þar með væri allt klappað og klárt. Flóknara var það ekki.

Virðulegi forseti. Enn og aftur, það er algerlega ófyrirgefanlegt að þetta skyldi hafa gerst hér á Íslandi þar sem fólk hefur lifað í þessu landi og veit alveg hvernig aðstæður eru og veit að svona mistök eiga alls ekki að geta gerst. Enn og aftur, fulla lögreglurannsókn í þessu máli.