133. löggjafarþing — 31. fundur,  21. nóv. 2006.

þróun í fjarskiptaþjónustu eftir einkavæðingu Símans.

[14:13]
Hlusta

Guðmundur Hallvarðsson (S):

Virðulegi forseti. Ég held að hér sé tvennt sammerkt með öllum sem á Alþingi sitja. Í fyrsta lagi að tryggja hag neytenda og í öðru lagi að tryggja þeim fyrirtækjum sem vilja veita þessa þjónustu góð rekstrarskilyrði.

10. október sl. kallaði samgöngunefnd á sinn fund forstjóra Póst- og fjarskiptastofnunar vegna fréttaflutnings af málum sem hér hafa verið rædd, m.a. þær fullyrðingar að það eina sem væri ódýrara á Íslandi núna hvað símnotkun snerti væru fastlínutengingarnar. Sú þróun hefði orðið að farsímagjöld hefðu hækkað hér á landi á meðan þau hefðu lækkað á öðrum Norðurlöndum. Símafyrirtækin mótmæltu þessu og sögðu að þetta væri ekki rétt, ekki væri tekið tillit til afsláttar símgjalda o.s.frv.

Það upplýstist hins vegar á fundi samgöngunefndar að viðmiðið sem sú ágæta nefnd Norðurlandanna byggir niðurstöðu sína á er það að farið er eftir svokölluðu heildsöluverðsgjaldi, þ.e. grunngjaldi, þar sem ekki er tekið tillit til afslátta eða annars þvílíks.

Í annan stað kom í ljós að á sama tíma og GSM-notkun á Íslandi hefur minnkað í samanburði við önnur Norðurlönd þá hafa gjöldin hækkað. Þetta vildi samgöngunefnd fá fram og þetta var rætt ítarlega. Auk þess kom margt athyglisvert fram, m.a. að það eru einhverjir þröskuldar fyrir þá aðila sem vilja komast í þessa þjónustu með þeim fyrirtækjum sem fyrir eru. Það kom fram að Síminn er með 65% hlut og Vodafone með 35%. Aðrir virðast ekki eiga aðgang að þessu kerfi. Ég held að við þurfum að skoða það alvarlega hvaða (Forseti hringir.) þröskuldar það eru sem eru þess valdandi að öðrum aðilum gefst ekki tækifæri til að komast inn í þessa þjónustu.