133. löggjafarþing — 31. fundur,  21. nóv. 2006.

skráning og mat fasteigna.

350. mál
[15:49]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður beindi til mín spurningunni: Hvað var fyrir daga þessa kerfis, þessarar landskrár? Þá var í gildi afskaplega gott kerfi sem voru veðbækur sýslumanna. Þar unnu mjög nákvæmir menn við skráningu og upplýsingagjöf. Það var reyndar dálítið þunglamalegt og þungt kerfi og erfitt en það skilaði sínu og stóð fyrir því að kapítalisminn eða — ég veit ekki hvaða íslenskt orð við finnum yfir það — markaðsbúskapurinn eða auðvaldið, kalla það sumir, gat gengið hér á landi. Þetta nýja kerfi gerir þessa upplýsingagjöf, skráningu og annað slíkt miklu hraðvirkari og nákvæmari. Það má vel vera að hluti af þeirri miklu veltuaukingu sem orðið hefur á fasteignamarkaði sé kannski vegna þess að kerfið er farið að virka og markaðsbúskapurinn gangi enn betur og muni ganga enn betur í framtíðinni vegna þess arna.

Ég vil benda á að ég held að verðmæti allra fasteigna í landinu, fasteignamatið, sé um 2.000 eða 2.500 milljarðar, þetta er eftir minni, þannig að kostnaðurinn við þetta kerfi er 1‰ af þeim kostnaði. Það er ekki stórt miðað við þá hagsmuni sem um er að ræða.

Hins vegar verðum við að gæta þess sérstaklega að þessi kostnaður sé ekki meiri en þörf er á og það sem ég ætla að gera í hv. efnahags- og viðskiptanefnd er að fá nákvæma lýsingu á því hve mikið fer til rekstrar og hve mikið fer í stofnkostnað, því að ég vil ekki taka undir með hv. þingmanni um að það sem einu sinni var í gildi, eitt sinn skattur, ávallt skattur, gildi lengur. Við erum búin að afleggja eignarskattinn — nú er hæstv. fjármálaráðherra ekki við til að taka við því lofi — við erum búin að afnema fjöldann allan af sköttum og erum að lækka skatta. Þessi regla gildir því ekki lengur en við verðum að vera sérstaklega á varðbergi gagnvart því að þetta gjald, sem átti fyrst að vera til fjögurra ára og verið er að framlengja til átta ára, vonandi bara sjö, endi sem viðvarandi skattur. Ég mun alla vega vera á varðbergi gagnvart því.