133. löggjafarþing — 31. fundur,  21. nóv. 2006.

vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

359. mál
[16:17]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir falleg orð í okkar garð í hæstv. ríkisstjórn. (Gripið fram í: Það er ekki í fyrsta skipti.) Ekki í fyrsta skipti, nei. En þar sem hann nefndi að honum fyndist ekki nóg að gert þá vil ég samt minna á þau verkefni sem ríkisstjórnin hefur stutt á undanförnum árum varðandi vetnisvæðingu og ef ég man rétt þá var í umfangsmikilli skýrslu sem samgönguráðherra gaf út fyrir ekki mjög mörgum árum talsvert ítarleg umfjöllun einmitt um notkun á endurnýjanlegum eldsneytisgjöfum í bifreiðum, þannig að það er ekki eins og ríkisstjórnin hafi ekkert gert í þessu sambandi. Hins vegar held ég að umhverfið, orkugjafar og þar fram eftir götunum séu einfaldlega ekki á því stigi enn þá að það sem við stjórnmálamennirnir ráðum við að gera hafi umtalsverð áhrif á það hvernig hlutirnir munu þróast næstu missirin. En hins vegar ef við höldum áfram að styðja við verkefni eins og vetnisverkefnið þá mun sá dagur væntanlega koma, að það að fella niður gjöld og ýta undir notkun slíkra orkugjafa á annan hátt muni hafa veruleg áhrif. Þá er ég viss um að ekki mun standa á hæstv. ríkisstjórn að taka sig til og leggja fram tillögur í þeim efnum sem munu falla hv. þingmanni jafn vel í geð og þessi tillaga.