133. löggjafarþing — 34. fundur,  23. nóv. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[14:32]
Hlusta

Guðjón Ólafur Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það sem er fyrst og fremst fréttnæmt við 2. umr. fjárlaga er að stjórnarandstaðan hefur komið sér saman um eina tillögu. Að sjálfsögðu kallaði stjórnarandstaðan saman fréttamenn af því tilefni eins og í hvert einasta skipti á kjörtímabilinu sem hún hefur komið sér saman um einhvern skapaðan hlut. Ég vek athygli á því að þetta er í fyrsta skipti á yfirstandandi kjörtímabili sem stjórnarandstaðan skilar einu minnihlutaáliti við frumvarp til fjárlaga.

Mig langar hins vegar að fræðast um eitt atriði, hæstv. forseti, frá hv. þm. Guðjóni Arnari Kristjánssyni. Það varðar þá stefnu sem Frjálslyndi flokkurinn og stjórnarandstaðan hefur sett fram og hefur komið fram í ræðu hv. þm. Sigurjóns Þórðarsonar, sem er nú heilbrigðisráðherraefni stjórnarandstöðunnar eins og menn vita. Hann hefur lagt gríðarlega áherslu á það, og lagði sérstaka áherslu á það í umræðu um stefnuræðu forsætisráðherra að það yrði að skera niður ríkisútgjöld. Hér væri orðið allt of mikið félagsmálabatterí og Sjálfstæðisflokkurinn væri orðinn stærsta félagsmálabatterí landsins.

Þess vegna spyr ég hv. þingmann, hvernig samræmast þessar tillögur Frjálslynda flokksins og stjórnarandstöðunnar þeirri stefnu flokksins að skera niður ríkisútgjöld?

Og í öðru lagi, mun hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson og félagar hans í stjórnarandstöðunni og Frjálslynda flokknum, styðja tillögur meiri hluta fjárlaganefndar um aukin ríkisútgjöld upp á 9,5 milljarða kr.?