133. löggjafarþing — 34. fundur,  23. nóv. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[15:24]
Hlusta

Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var eiginlega beiðni um smáyfirlit um efnahagsmál. Það er nú varla hægt að koma því fyrir í andsvari. En þannig standa málin að íslenska ríkið er skuldlaust. Einstaklingarnir og fyrirtækin hafa skuldsett sig mikið og það er hættuleg þróun, eins og menn hafa bent á víða í Vestur-Evrópu, bæði hér og í Bandaríkjunum. Það er mjög hættuleg þróun. En eignir þeirra hafa aukist enn þá meira og við skulum vona að þeir kunni fótum sínum forráð.

Sú efnahagsstefna sem við höfum rekið hefur skilað öll fullkomnum árangri. Afkoma sjávarútvegs á Íslandi hefur aldrei verið betri í áratugi. Þökk sé því einkaframtaki sem þar vinnur, þökk sé þeirri frjálsu verslun sem þar ríkir, þökk sé þeirri frjálsu verðmyndun sem er á öllu, bæði gjaldeyri og á markaði, og þökk sé þeirri grundvallarbreytingu sem gerð hefur verið á íslensku efnahagslífi.

Þetta stendur mjög traustum fótum og þetta er grundvallaratriði varðandi afkomu landsbyggðarinnar. Það sem ég spurði hv. þingmann um, og átti von á að hann talaði um, var hvernig á því að standi að þeir geti eilíflega komið sér undir þá landsbyggðarfjandsamlegu stefnu að taka undir eilífan barnaskap einhverra krakka sem gráta út af einhverjum grösum, sem er allt misskilningur. Íslensk náttúra stendur mjög vel. Við höfum hvergi gert nein hermdarverk gagnvart náttúrunni. Við höfum hvergi nokkurs staðar skaðað íslenska náttúru. Við erum að byggja upp til framtíðar með orkunni sem við eigum í svo ríkum mæli og mun færa þessari þjóð gríðarlegar tekjur á komandi mannsöldrum. Af hverju í ósköpunum eru þessir menn alltaf að berjast gegn landsbyggðinni?