133. löggjafarþing — 35. fundur,  24. nóv. 2006.

Flugmálastjórn Íslands.

390. mál
[15:45]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er í sjálfu sér þakkarvert að hæstv. ráðherra skuli hafa unnið forvinnu í málinu. Mættu ýmsir kollegar hans og starfssystur í hæstv. ríkisstjórn taka sér þau vinnubrögð til eftirdæmis og reyna frekar að ná meiri sátt um ýmis mál sem hingað koma og eru ákaflega umdeild.

Ég hafði talið, áður en ég hlýddi á mál hæstv. ráðherra, að í þessu frumvarpi væri ekki um að ræða nein ákvæði sem leiddu til aukinnar gjaldtöku. Hæstv. ráðherra greindi hins vegar frá því að í 2. gr. frumvarpsins væri að finna auknar gjaldtökuheimildir. Mig langar því til að spyrja hann: Er það svo að hér sé fortakslaust verið að veita nýjar gjaldtökuheimildir og hvað er gert ráð fyrir að sú gjaldtaka kunni að nema miklu þegar allt er saman reiknað?