133. löggjafarþing — 38. fundur,  30. nóv. 2006.

fjáraukalög 2006.

47. mál
[15:27]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. „Yfirboð,“ segir hv. þingmaður, gagnvart þessum hópi, lífeyrisþegum, þ.e. örorkulífeyrisþegum og ellilífeyrisþegum. Það er hægt að hafa þá aðferð að halda niðri kjörum og hækka þau svo skyndilega rétt fyrir kosningar, þó allt of lítið.

Ég minnist þess líka að eldri borgarar sögðu á þessum fundi — án þess að ég sé að vitna í einstök orð nefndarmanna, þeirra manna sem komu á fund fjárlaganefndar, því það gerir maður almennt ekki — en þeir sögðu: „Best væri að vera með kosningar einu sinni ári því þessir ríkisstjórnarflokkar reyna aldrei að gera neitt nema aðeins að hysja upp um sig buxurnar síðustu mánuði fyrir kosningar. Síðan hin árin þá er allt í lagi að láta reka á reiðanum.“

Ég vona að hv. þingmaður muni þau orð líka að það þurfi að kjósa árlega til þess að ríkisstjórnarflokkarnir, (Forseti hringir.) Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn, sýni viðleitni í að bæta kjör örorkulífeyrisþega og aldraðra.