133. löggjafarþing — 39. fundur,  4. des. 2006.

stuðningur við innrásina í Írak.

[15:11]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég ætlaði einnig að hreyfa sama máli og beina máli mínu til hæstv. forsætisráðherra, formanns Sjálfstæðisflokksins, yfirmanns ríkisstjórnarinnar. Ég vitna til viðtals á fréttavef BBC við Kofi Annan þar sem hann lýsir þeirri skoðun sinni að ástandið í Írak nú sé borgarastyrjöld, þráspurður að því af hálfu fréttamanns, ber það saman við borgarastyrjöldina í Líbanon á sínum tíma og segir að ástandið í Írak nú sé verra en ástandið var þar.

Hann lýsir jafnframt hryggð sinni yfir því að gengið hafi verið fram hjá öryggisráði Sameinuðu þjóðanna á sínum tíma og lýsir þeirri skoðun að með meiri tíma fyrir vopnaeftirlitsmenn og alþjóðlegum aðgerðum hefði mátt komast hjá þessu hörmulega stríði og því ástandi sem nú hefur skapast í Írak þar sem allt hafi gengið eftir sem varað var við. Að lokum lýsir fráfarandi aðalritari Sameinuðu þjóðanna því að hagur almennra borgara í Írak sé verri nú en hann var á tímum harðstjórnar Saddams Husseins.

Ég spyr hæstv. forsætisráðherra hvort hann sé sammála aðalritara Sameinuðu þjóðanna um að í Írak sé borgarastyrjöld og ástandið með þeim hætti sem hann lýsir.

Seinni spurning mín til hæstv. forsætisráðherra er mjög praktísk og varðar hlut sem snýr beint að Íslandi. Það þýðir ekki fyrir hæstv. ríkisstjórn að láta eins og að yfirlýsing sú sem gefin var af hálfu ríkisstjórnarinnar í nafni Íslands á sínum tíma hafi verið án nokkurra skuldbindinga. Staðreyndin er sú að bandarískum stjórnvöldum voru gefin fyrirheit og það samþykkt að þau mættu nota íslenska lofthelgi, lenda á íslenskum flugvöllum, auk þess sem heitið var fjárframlögum til þess sem kallað var uppbygging í Írak að loknu stríði.

Og nú spyr ég hæstv. forsætisráðherra og ég vona að svörin verði ekki í neinni þoku: Stendur samþykki Íslands við því að íslensk lofthelgi og íslenskir flugvellir séu notaðir vegna aðgerða í Írak eða hefur það verið formlega afturkallað? Það er a.m.k. eitthvað sem hægt er að gera og hefur hagnýta þýðingu. Eða er enn þá að þessu leyti óbreyttur stuðningur ríkisstjórnar Íslands við stríðið í Írak sem stendur yfir, borgarastyrjöldina sem þar er og Bandaríkjamenn eru aðilar að?

Ég vil fá svör, já eða nei. Er yfirlýsingin enn að þessu leyti í fullu gildi eða hefur hún verið afturkölluð? Ef ekki, stendur þá til að afturkalla hana?