133. löggjafarþing — 39. fundur,  4. des. 2006.

vörugjald, virðisaukaskattur og gjald af áfengi og tóbaki.

416. mál
[16:11]
Hlusta

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Allir sjá að ríkisstjórnin hefst fyrst og fremst að í þessu máli vegna frumkvæðis Samfylkingarinnar frá í haust og reyndar frá fyrri þingum. Tvennt staðfestir það kannski fremur en annað. Það er m.a. tillaga hæstv. fjármálaráðherra um að hv. efnahags- og viðskiptanefnd skoði ekki áfengisgjöldin, frumvarpið er það illa unnið að við eigum að skilja það eftir.

Annað stingur í stúf. Í þessu frumvarpi ríkisstjórnarinnar er hvergi minnst á fyrirhugaða og boðaða tollalækkun. Allir sem hafa kynnt sér þessi mál vita að það er stóri þátturinn í að lækka matvælaverðið, þ.e. breytingar á tollunum. Ég vil því kalla eftir skýrum svörum frá hæstv. fjármálaráðherra um það: Hvernig stendur á því að í þessu frumvarpi og ekki heldur í fjárlögunum er gert ráð fyrir að tollar eigi að lækka þrátt fyrir að ríkisstjórnin hafi boðað að tollar skuli lækka að einhverjum hluta 1. mars næstkomandi?