133. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2006.

rannsóknir á sandsíli.

201. mál
[15:25]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Ég tel að um mjög áhugaverða umræðu sé að ræða vegna þess að málið snýst um stofna sem við nýtum ekki, sem við veiðum ekki. En í umræðunni um stjórn fiskveiða tala ráðamenn og jafnvel sumir vísindamenn eins og maðurinn einn hafi áhrif á stærð og afkomu stofna.

Við sjáum það í því þegar menn velta fyrir sér hvort 200.000 tonna veiði eða 205.000 tonna veiði skipti öllu máli. Það er af og frá ef við lítum á þær stærðir sem eru í náttúrunni. Þá sjá menn að veiðar mannsins skipta mjög litlu máli.

Bara hrefnustofninn étur meira sjávarfang heldur en landsmenn sækja. Hrefnustofninn við Íslandsmið étur mun meira en landsmenn veiða allt árið í kringum Ísland. Það að telja (Forseti hringir.) að einungis veiðar mannsins ráði úrslitum um stærð og afkomu stofna, menn ættu að setja spurningarmerki við það.