133. löggjafarþing — 43. fundur,  6. des. 2006.

fæðingar- og foreldraorlof.

428. mál
[20:41]
Hlusta

félagsmálaráðherra (Magnús Stefánsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga breytingu á lögum um fæðingar- og foreldraorlof.

Frumvarpið tryggir samræmingu greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði annars vegar og umönnunargreiðslna samkvæmt lögum um félagslega aðstoð hins vegar. Fram til þessa hafa greiðslur í fæðingarorlofi og réttur til umönnunargreiðslna ekki farið saman, þ.e. foreldrar sem átt hafa rétt til greiðslna í fæðingarorlofi hafa ekki á sama tíma átt rétt til umönnunargreiðslna. Úr þessu er bætt með frumvarpinu.

Hv. þingmenn þekkja vel forsögu þessa máls og hafa ítrekað tekið málið upp á Alþingi. Eftir að ég tók við embætti félagsmálaráðherra lét ég fara mjög vel yfir þessi mál og eftir þá yfirferð komst ég að þeirri niðurstöðu að þessar greiðslur væru samrýmanlegar í eðli sínu.

Þá vil ég rifja það upp að ég hét því í umræðum um málið á Alþingi 1. nóvember síðastliðinn að beita mér fyrir breytingum á lögum um fæðingar- og foreldraorlof á yfirstandandi þingi í þá veru að þessar greiðslur færu saman, og legg í samræmi við það fram frumvarp það sem hér um ræðir.

Tilgangur greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði og umönnunargreiðslna, á grundvelli 4. gr. laga um félagslega aðstoð, er ekki sá sami. Greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði er ætlað að mæta tekjumissi foreldra er þeir annast barn sitt í fæðingarorlofi, en umönnunargreiðslum er ætlað að mæta útgjöldum fjölskyldna sem rekja má til veikinda eða fötlunar barna.

Auk framangreinds efnis frumvarps þessa er nauðsynlegt að gera breytingar á lögunum þar sem ákveðið hefur verið, í samræmi við 2. mgr. 4. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof, að fela Vinnumálastofnun vörslu Fæðingarorlofssjóðs. Fram að þessu hefur varsla sjóðsins verið hjá Tryggingastofnun ríkisins. Hér er fyrst og fremst um að ræða tæknilega útfærslu í frumvarpinu í framhaldi af þeirri ákvörðun.

Þó er ein efnisbreyting sem felst í tillögum í tengslum við flutning verkefnisins til Vinnumálastofnunar. Fram til þessa hefur verið gerð skyldubundin krafa um að tryggingayfirlæknir endurmeti vottorð frá lækni um hvort lenging fæðingarorlofs eða lenging á rétti til fæðingarstyrks sé nauðsynleg. Í frumvarpinu er gerð tillaga um að Vinnumálastofnun verði heimilt að óska eftir umsögn frá öðrum aðila um hvort slík lenging sé nauðsynleg. Er það því lagt í hendur framkvæmdaraðilans að meta hvort þörf sé á endurmati á vottorði læknis umsækjanda. Slíkt fyrirkomulag er í samræmi við ákvæði laga um greiðslur til foreldra langveikra og alvarlega fatlaðra barna.

Hæstv. forseti. Að lokinni 1. umr. legg ég til að frumvarpinu verði vísað til 2. umr. og hv. félagsmálanefndar.