133. löggjafarþing — 43. fundur,  6. des. 2006.

fæðingar- og foreldraorlof.

428. mál
[21:03]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að það séu engin vandkvæði á því fyrir þingið að afgreiða þessi góðu mál á þeim tíma sem er til jóla, það óttast ég ekki. En ég tek undir gagnrýni hv. þingmanns á hæstv. ríkisstjórn varðandi mál sem koma svo seint fram.

En ég vildi velta upp því sem menn kalla málþóf, þar sem menn tala kannski í marga klukkutíma um mál sem búið er að ræða tvisvar eða þrisvar áður, t.d. RÚV-málið. Öll sjónarmið hafa komið fram, hvert einasta og búið að tína til öll rök, með og á móti. Ekkert nýtt mun koma fram í þeirri umræðu sem hér hefur verið haldið fram að muni taka marga sólarhringa.

Ég velti fyrir mér hvort það sé forsvaranlegt af stjórnarandstöðunni að stunda málþóf á sama tíma og við hefðum góðan tíma til að ræða góð mál eins og þau sem við ræðum hér. (ÖJ: Af hverju gerir maðurinn það ekki?)