133. löggjafarþing — 44. fundur,  7. des. 2006.

tvöföldun Suðurlandsvegar -- málefni aldraðra.

[10:49]
Hlusta

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil eins og fleiri taka undir hvað það er mikilvægt að pólitísk samstaða hafi náðst um þessa miklu framkvæmd. Í rauninni hefur ríkisstjórnin lýst því yfir að eitt brýnasta öryggismálið sé að tvöfalda leiðirnar austur fyrir fjall og upp í Borgarfjörð.

Ég man eftir því að sá mikli ferðagarpur Ólafur heitinn Ketilsson sagði við mig fyrir 10–12 árum að það væri mikilvægt að það væri einn vegur frá Selfossi til Reykjavíkur og annar vegur frá Reykjavík austur á Selfoss. Við þyrftum á þessar leiðir evrópska vegi, sagði gamli maðurinn.

Nú höfum við fengið slíkan veg til Keflavíkur og sjáum hvers lags öryggisatriði það er. Auðvitað er nú mikilvægast að gera sér grein fyrir því hvernig við byggjum þennan veg, hanna hann og þá kemur kostnaðurinn í ljós. Samgönguráðherra er að vinna það verk.

Fyrst og fremst blasir sú staða við íslensku samfélagi að ríkið skuldar sáralítið í dag, u.þ.b. 27 milljarða um áramót, sem gerir okkur það kleift sem verið er að áforma, þ.e. að ráðast í þessi stórhuga verkefni á sem stystum tíma. Miðað við umsvifin í þjóðfélaginu, þá miklu flutninga, aukningu á umferð á þessum vegum, gera sér allir grein fyrir að þeir bera umferðina ekki lengur. Þess vegna er fagnaðarefni að við munum fara í þessa framkvæmd á þessum leiðum, á stofnvegum til og frá höfuðborginni á sem stystum tíma.

Ég veit að samgönguráðherra mun sem allra fyrst ná samstöðu um það hvernig þessir vegir verða og hvaða leiðir verða farnar. Þá kemur kostnaðurinn á myndina (Forseti hringir.) og síðan útboð og framkvæmdir.