133. löggjafarþing — 44. fundur,  7. des. 2006.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[23:15]
Hlusta

Sæunn Stefánsdóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson og stjórnmálaskýrandi í ræðu hans áðan ræðir mikið um stöðu Framsóknarflokksins. Ég tek undir það að staða hans er óásættanleg um þessar mundir en ég get að sama skapi glatt hann með því að ég tel að við munum ná vopnum okkar og fyrri styrk. Ég held að á stöðu okkar séu aðrar skýringar en hann hefur rakið hér, a.m.k. hvað varðar RÚV.

Í ræðu sinni ræddi hann mikið um afstöðu og stefnu Framsóknarflokksins í þessu máli og þess vegna finnst mér rétt að nota tækifærið og rifja aðeins upp aðdraganda málsins. Það er nefnilega svo að Ríkisútvarpið hefur einmitt verið eitt helsta ágreiningsefni þeirra flokka sem nú eru í ríkisstjórn. Menn hafa ekki verið sammála um hvað gera eigi við Ríkisútvarpið. Lengstum var það stefna Sjálfstæðisflokksins, a.m.k. hluta flokksins, að selja hluta af RÚV, ef ekki alfarið, á meðan það hefur alltaf verið skýr stefna Framsóknarflokksins að hér yrði rekið áfram sterkt almannaþjónustuútvarp í eigu ríkisins. Það sem hefur gerst á þessu kjörtímabili er að Sjálfstæðisflokkurinn hefur hreinlega breytt um skoðun og er orðinn sammála okkur. Það er algjör samstaða um það í stjórnarsamstarfinu að hér verði áfram rekið sterkt almannaþjónustuútvarp í eigu ríkisins.

Af því að hér hefur mikið verið rætt um grasrótina í Framsóknarflokknum, frú forseti, og það er greinilegt að hv. þm. Össur Skarphéðinsson telur sig vera í miklu sambandi við hana, þá er það þannig að ég hef farið um allt land í haust og haldið nærri 20 fundi með framsóknarfólki, opna og opinskáa umræðufundi í öllum kjördæmum þar sem ég hef hitt okkar helsta trúnaðarfólk og það vill svo til að þetta frumvarp hefur ekki verið rætt á þessum fundum heldur allt annað.