133. löggjafarþing — 45. fundur,  8. des. 2006.

símhleranir.

[14:43]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Hv. málshefjandi hóf mál sitt á því að vísa í þá ágætu bók Guðna Th. Jóhannessonar, Óvinir ríkisins, en fór síðan af stað með gamla sönginn um að þetta væru njósnir sem sérstaklega hefðu verið þénugar Sjálfstæðisflokknum og Sjálfstæðisflokkurinn hefði staðið á bak við og fleira í þeim dúr.

Ég vil í því sambandi víkja að því að í þessari bók er vitnað til greinar Guðna Th. Jóhannessonar, þar sem hann segir:

„En ég segi það aftur hér svo það fari ekki á milli mála: Leyniþjónusta Sjálfstæðisflokksins er að mínu mati rangnefni yfir máttlitla öryggisþjónustu lögreglunnar í Reykjavík, svo máttlitla í raun að ráðamenn gátu nær aldrei farið offari þegar öryggi ríkisins þótti vera í veði.“

Ef það er þannig að hv. þingmenn eru að hvetja til þess að hér skuli fara fram heiðarleg umræða um þetta mál, eins og hv. þingmaður gerði og við skulum reyna að velta við öllum steinum og reyna að upplýsa málið, erum við þá ekki sammála um að upphaf þess hlýtur að vera heiðarleg og almenn góð umræða um þessi mál?

Mér finnst það ekki lýsa því þegar hv. þingmaður byrjar á því að vísa í þessa bók og fer síðan að tala á þeim nótum sem hv. þingmaður gerði. Það hefur aldrei staðið á Sjálfstæðisflokknum að reyna að upplýsa þetta mál. Þvert á móti höfum við einmitt staðið að lagabreytingum og löggjöf eins og hv. þingmaður rakti hér áðan til að reyna að varpa ljósi á málið.

Það er algjörlega rangt að Sjálfstæðisflokkurinn standi í vegi fyrir því að ljósi sé varpað á þetta mál. Það er alveg rétt sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði hérna áðan, þetta snýst ekki bara um hleranir. Það eru ýmsar aðrar hliðar þess sem þarf að varpa ljósi á. Meðal annars um fjárhagsleg tengsl íslenskra stjórnmálaflokka við erlend ríki eins og Sovétríkin og auðvitað þarf að varpa ljósi á þetta tímabil til að skýra ýmislegt.

Það er alveg ljóst að hér á landi fóru ekki fram skipulegar hleranir eins og áttu sér stað t.d. í Noregi undir stjórn Verkamannaflokksins. Það er algjörlega rangt, eins og menn hafa verið að draga fram, (Gripið fram í.) að slíkt ástand hafi verið hér á landi. Það er alveg ljóst mál og kemur m.a. fram í þessari bók en það vilja hv. þingmenn ekki hlusta á vegna þess að þeim er illa við að hér fari fram efnisleg umræða (Gripið fram í.) heldur bara frammíkallaumræða.

Það er alveg ljóst mál að hér var um að ræða einstök tilvik þar sem alltaf var stuðst við dómsúrskurði og sú öryggisþjónusta sem hér var skipuð tveimur, þremur mönnum var auðvitað (Forseti hringir.) langt frá því að vera einhver leyniþjónusta sem vakti yfir öllu og öllum. Það er ekki Sjálfstæðisflokkurinn sem berst gegn því að þessi mál séu upplýst. Það eru þeir sem vilja reyna að afvegaleiða umræðuna eins og glögglega hefur komið hér fram í dag.