133. löggjafarþing — 46. fundur,  8. des. 2006.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

330. mál
[21:32]
Hlusta

Frsm. meiri hluta heilbr.- og trn. (Guðjón Ólafur Jónsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti meiri hluta heilbrigðis- og trygginganefndar um frumvarp til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar og lögum um málefni aldraðra. Umrætt frumvarp er á þingskjali 353 en nefndarálit meiri hluta á þingskjali 582.

Ásamt mér standa að nefndaráliti meiri hlutans hv. þingmenn Ásta Möller, Gunnar Örlygsson, Jón Kristjánsson og Pétur H. Blöndal, með fyrirvara.

Nefndin fjallaði ítarlega um málið á fundum sínum og fékk á sinn fund ýmsa góða gesti en þeir voru Vilborg Þ. Hauksdóttir frá heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti, Ólafur Hjálmarsson og Eyþór Benediktsson frá fjármálaráðuneyti, Ásmundur Stefánsson, Karl Steinar Guðnason, Ágúst Þór Sigurðsson, Sigríður Lillý Baldursdóttur og Sigurður Grétarsson frá Tryggingastofnun ríkisins, Ólafur Ólafsson, Einar Árnason, Helgi K. Hjálmsson, Borgþór St. Kjærnested og Trausti Björnsson frá Landssambandi eldri borgara, Margrét Margeirsdóttir, Stefanía Björnsdóttir og Sigurður Hallgrímsson frá Félagi eldri borgara í Reykjavík og loks frá Öryrkjabandalagi Íslands komu Sigursteinn Másson og Hafdís Gísladóttir.

Auk þess bárust nefndinni fjölmargar umsagnir um málið, þ.e. frá Samtökum atvinnulífsins, Öryrkjabandalagi Íslands, Lögmannafélagi Íslands, Alþýðusambandi Íslands, Persónuvernd, Landssambandi eldri borgara, Félagi eldri borgara í Reykjavík, Tryggingastofnun ríkisins, Landssamtökum lífeyrissjóða, landlækni, Þroskahjálp – landssamtökum, Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga og Samtökum sykursjúkra.

Þær breytingar sem helst eru lagðar til í frumvarpinu lúta að fækkun bótaflokka og einföldun almannatryggingakerfisins, hækkun grunnfjárhæðar tekjutryggingar og lækkun skerðingarhlutfalls vegna tekna bótaþega og maka. Samanlögð skerðing lífeyris og tekjutryggingar verður takmörkuð við 38,35% af tekjum.

Eins og áður hefur komið fram á hinu háa Alþingi byggist frumvarpið á samkomulagi ríkisstjórnarinnar og Landssambands eldri borgara frá því fyrr í sumar og sameiginlegum tillögum frá þeirri nefnd sem forsætisráðherra hafði skipað til að fjalla annars vegar um búsetu- og þjónustumál aldraðra og hins vegar um fyrirkomulag tekjutengingar bóta með hliðsjón af skerðingu bóta lífeyrisþega vegna tekjuöflunar.

Rétt er að taka fram að árið 2003 gerði ríkisstjórnin samkomulag við Landssamband eldri borgara um sömu efni og við það var staðið að fullu og öllu leyti af hálfu ríkisstjórnarinnar og stjórnarflokkanna á hinu háa Alþingi, nema að því er varðaði sveigjanleg starfslok. Þegar hafa verið samþykkt fjárlög á hinu háa Alþingi fyrir næsta ár, svo og fjáraukalög fyrir þetta ár þar sem að fullu er tekið tillit til þessa samkomulags við aldraða.

Meiri hluti heilbrigðis- og trygginganefndar leggur til nokkrar breytingar á frumvarpinu og rétt er að taka fram að ríkisstjórnin hefur frá því að frumvarpið var lagt fram gefið út tvær yfirlýsingar sem varða breytingar á frumvarpinu. Önnur yfirlýsingin fjallaði um að það skyldi flýta framkvæmd á frítekjumarki vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega um þrjú ár eða til 1. janúar 2007. Síðari yfirlýsingin fól í sér þrjú atriði. Í fyrsta lagi að lífeyrisþega væri heimilt að dreifa eigin tekjum sem stafa af fjárhagstekjum og séreignarsparnaði, sem leystur hefði verið út í einu lagi, á allt að tíu ár.

Í öðru lagi var örorkulífeyrisþegum heimilað 300 þús. kr. frítekjumark vegna atvinnutekna og jafnframt er heimilað að telja 60% af atvinnutekjum til tekna við útreikning á tekjutryggingu lífeyrisþega eins og er í gildandi lögum um öryrkja. Lagt er til af hálfu meiri hluta heilbrigðis- og trygginganefndar að elli- og örorkulífeyrisþegum verði heimilt að velja um að nýta 300 þús. kr. frítekjumark vegna atvinnutekna eða telja 60% af atvinnutekjum til tekna við útreikning tekjutryggingar eftir því hvort er hagstæðara fyrir viðkomandi. Til að þetta sé skiljanlegt í tölum hagnast sá sem hefur 62.500 kr. á mánuði (750 þúsund á ári) eða minna í atvinnutekjur af því að fá 300 þús. kr. frítekjumark á ári.

Þriðja atriðið sem sprottið er af hinni síðari yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er að flýtt er gildistöku ákvæða um að dregið verði úr áhrifum atvinnutekna maka og um afnám áhrifa lífeyristekna maka á viðmiðunartekjur hins við útreikning á fjárhæð tekjutryggingar.

Kunnara er en frá þurfi að segja, hæstv. forseti, að frumvarp þetta, og ég tala nú ekki um með þeim breytingum sem meiri hlutinn leggur til, er stærsta skref sem stigið hefur verið árum og áratugum saman í að bæta kjör aldraðra og öryrkja hér á landi. Verið er að leggja til tillögur til að mæta þeim áhersluatriðum sem öryrkjar og aldraðir og samtök þeirra hafa haldið á lofti á undanförnum mánuðum og missirum. Ég vek athygli á að samkvæmt frumvarpi ríkisstjórnarinnar var gert ráð fyrir að heildarkostnaður stjórnvalda til ársins 2010 yrði 26,7 milljarðar kr., hvorki meira né minna, sem bætast aukalega við til málefna ellilífeyrisþega.

Þær breytingar sem nefndin leggur til munu kosta um 2,3 milljarða kr. til viðbótar til ársins 2010. Þetta þýðir að á næstu fjórum árum er gert ráð fyrir 29 milljörðum, 29 þúsund milljónum kr. aukalega til málefna aldraðra. Þar af fara 19,5 milljarðar til ellilífeyrisþega og 9,4 milljarðar kr. til örorkulífeyrisþega. Þetta eru stórkostlegar breytingar, hæstv. forseti. Þetta er raunveruleg kjarabót fyrir aldraða og öryrkja. Ekki er um nein yfirboð að ræða heldur samkomulag við aldraða og það er bætt í og það ríflega, hæstv. forseti.

Ég vil vekja athygli hv. þingmanna á fylgiskjölum sem fylgja nefndaráliti meiri hlutans. Í fyrsta lagi er á bls. 5 í nefndarálitinu fylgiskjal I þar sem er að finna annars vegar samantekt á kostnaði vegna samkomulags við eldri borgara eins og sú samantekt leit út þegar frumvarpið var flutt á hinu háa Alþingi og hins vegar samantekt á kostnaðinum eins og hún er eftir breytingar. Eins og þar kemur fram er gert ráð fyrir að lífeyrishlutinn kosti 19.551 millj. kr. eða 19,5 milljarða kr. og að hækkun til örorkulífeyrisþega nemi 9.434 millj. kr. Samtals gerir þetta 28.985 millj. kr. eða tæpa 29 milljarða kr., sem er eins og ég segi mesta framför í málefnum öryrkja og aldraðra í háa herrans tíð. (Gripið fram í.)

Ég vil líka vekja athygli á mismunatöflu á bls. 6, tel í sjálfu sér ekki ástæðu til að fara yfir hana sérstaklega en fylgiskjal II geymir töflur sem sýna útreikninga yfir væntanlegar greiðslur til ellilífeyrisþega og fylgiskjal III greiðslur til örorkulífeyrisþega. Eins og sést á þeim töflum, hæstv. forseti, er um gríðarlega kjarabætur að ræða og oft er auðvelt að setja hlutina myndrænt upp þannig að menn geti gert sér grein fyrir því. Þessar breytingar eru að hluta til þegar komnar í framkvæmd og munu koma af fullum þunga til framkvæmda núna strax um næstu mánaðamót eða eftir svo sem eins og þrjár vikur. Ég vek athygli hv. þingmanna á því að þó að þessar töflur séu ekki í lit sést með skýrum hætti hvernig framlög til einstakra lífeyrisþega, hvort heldur er ellilífeyrisþega eða örorkulífeyrisþega, aukast gríðarlega við þessar breytingar. Auðvitað gefa tölurnar til kynna hversu gríðarlegum fjármunum er verið að verja til aldraðra og öryrkja af hálfu ríkisstjórnarinnar aukalega, umfram það sem nú er gert ráð fyrir samkvæmt gildandi reglum.

Að síðustu, hæstv. forseti, er rétt að taka fram að meiri hluti heilbrigðis- og trygginganefndar leggur til nokkrar breytingar sem eru lagatæknilegs eðlis, sem ég sé í sjálfu sér ekki ástæðu til að gera frekari grein fyrir. Ég vænti þess að um frumvarpið náist góð og breið samstaða hér á hinu háa Alþingi. Menn eiga að viðurkenna það sem vel er gert. Það er vel staðið að þessum málum af hálfu ríkisstjórnarinnar og stjórnarmeirihlutans og auðvitað er endalaust hægt að gera betur, það er endalaust hægt að vera með yfirboð og einhvers konar upphlaup en þetta er það sem meiri hluti heilbrigðis- og trygginganefndar leggur til. Ég hvet hv. þingmenn til að standa með meiri hluta heilbrigðis- og trygginganefndar við afgreiðslu málsins.