133. löggjafarþing — 49. fundur,  9. des. 2006.

tekjuskattur og staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur.

276. mál
[17:49]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Í þessu frumvarpi er margt sem horfir til framfara, en annað má betur fara og gerir stjórnarandstaðan tillögur þar að lútandi. Við getum ekki stutt 2. gr. frumvarpsins enda er hún mjög varhugaverð að okkar mati. Í henni er að finna skattaívilnanir til fólks í þeim sveitarfélögum sem greiða foreldrum fyrir að vera heima í stað þess að senda börn í leikskóla. Talsmaður Sjálfstæðisflokksins gaf til kynna við umræðu um þetta frumvarp að eðlilegt væri að færa allan kostnað innan velferðarkerfisins til bókar. Síðan ætti að leggja að jöfnu í peningalegu tilliti þjónustu sem veitt er á samfélagslegum forsendum annars vegar og einkalausna hins vegar. Ekki mætti mismuna á kostnað einkalausna. Þessi frjálshyggjuhugsun kemur til með að naga að rótum velferðarsamfélagsins.

Þá er annað og það snýr að hæstv. fjármálaráðherra. Ef á annað borð er haldið inn á þessa braut orkar forgangsröðun ríkisstjórnarinnar mjög tvímælis. Að okkar mati hefði verið eðlilegra að ívilna þeim sem fá umönnunarbætur vegna langveikra barna í stað þess að byrja á þessum endanum.

Síðan er hitt, það er ekkert þak á þessum skattaívilnunum. Þær gætu verið á greiðslum sem næmu 30 þús. kr. og þær gætu verið á greiðslum sem næmu 300 þús. kr. Það er algerlega komið undir sveitarfélögunum hverju sinni hve há upphæðin er. Hér er því um að ræða skattaívilnanir sem ekki grundvallast á almennum reglum sem taka til allra landsmanna. Þetta eru óábyrg fúskvinnubrögð sem ekki eru sæmandi hæstv. fjármálaráðherra landsins.

Hæstv. fjármálaráðherra sagði að verið væri að leysa ákveðin vandamál með þessu móti. Við í stjórnarandstöðunni viljum leysa vanda ungra barna með því að lengja fæðingarorlofið og með því að efla og bæta leikskólann. Við viljum samfélagslausnir í stað einkalausna.