133. löggjafarþing — 51. fundur,  15. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[22:23]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Menn hafa flutt hérna skýr og skilmerkileg rök fyrir nauðsyn þess að þingmenn fái a.m.k. að vita hversu lengi hæstv. forseti ætlar að halda fram fundi. Ég get tínt fleiri rök til. Ég hygg t.d. að hv. formaður menntamálanefndar þurfi tóm til að geta skipulagt svefntíma sinn ef hann er þá ekki þegar farinn að sofa. Ekki er hann hér í salnum, svo mikið er víst. Mér hefur líka þótt alveg ljóst að það er töluvert af honum og hæstv. menntamálaráðherra dregið eftir þessa umræðu og ekki vanþörf á að bæði fái tóm til að hvíla sig undir umræðu næstu daga sem líkleg er til að standa ekki bara út þessa viku heldur næstu viku ef svo heldur fram sem horfir, að þeir hv. þingmenn stjórnarliðsins sem stýra för málsins í gegnum þingið ætla að halda uppteknum hætti og svara ekki því sem fyrir þá er lagt.

Við höfum hér í dag reynt að efna til málefnalegrar umræðu, bæði við hæstv. menntamálaráðherra og hv. formann menntamálanefndarinnar, um það sem við teljum vera lykilatriði í þessu máli en svör fást ekki.

Það kom glöggt fram í dag þegar harðar deilur stóðu hér um leyndarskjölin, sem hæstv. menntamálaráðherra leysti ekki til nefndarinnar fyrr en því var uppljóstrað í fjölmiðli hér í borg að væru til, að hæstv. ráðherra vissi ekki hvað í þeim stóð. Hún hafði ekki lesið þau. Það er hins vegar alveg ljóst að hér er um að ræða mikilvægan þátt í málinu. Væri ekki bæði kurteisi og sniðugt af hæstv. forseta að gefa ráðherranum blessuðum tóm til að fara heim og stúdera þetta og vera a.m.k. viðræðuhæf um þetta lykilatriði málsins?

Sömuleiðis höfum við varpað fram spurningum um mjög merka þætti sem varða málið, samkeppnisþættina, til hv. formanns menntamálanefndar. Það hefur komið í ljós að hann hefur staðið algjörlega á gati.

Væri ekki líka ráð að veita hv. formanni menntamálanefndar tóm til að búa sig undir það sem verður örugglega mjög hörð umræða um á morgun, um þessa lykilþætti? Þetta er spurning um það, herra forseti, að menn leggi af mörkum til þess að greiða fyrir umræðunni. Ég er að gera það fyrir mitt leyti.

Ég verð að trúa hæstv. forseta fyrir því að eitt bagar mjög umræðuna, það er að koma í ljós ákaflega átakanlegt tengslaleysi á millum forsetanna. Það virðist sem hæstv. forseti Birgir Ármannsson viti ekkert af því að hæstv. forseti Sólveig Pétursdóttir gaf alveg skýrar yfirlýsingar um það að fundurinn ætti ekki að standa nema þar til kvöldi sleppti og því er það ekki (Forseti hringir.) nema von að við spyrjum hæstv. forseta hvort hann ætli að brjóta þau orð hennar. Getur verið að það væri kannski best fyrir hæstv. (Forseti hringir.) forseta að fresta fundi til að ráðslaga við hæstv. forseta Sólveigu Pétursdóttur?

(Forseti (BÁ): Hv. þingmaður þarf ekki að hafa áhyggjur af tengslaleysi forseta.)