133. löggjafarþing — 53. fundur,  17. jan. 2007.

beiðni um utandagskrárumræðu o.fl.

[11:05]
Hlusta

Dagný Jónsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Eins og fram kom hjá hæstv. forseta áðan ákveður hann dagskrá fyrir hvern dag og er að mínu mati og annarra bundinn af því samkomulagi sem gert var fyrir jól. (Gripið fram í: Var samkomulag?) Það er ekki nema von þó að hv. stjórnarandstaða vilji dreifa athyglinni frá málþófi um Ríkisútvarpið.

Virðulegi forseti. Ég kvaddi mér hljóðs (Gripið fram í.) undir liðnum um fundarstjórn forseta vegna þess að það var hv. þingmaður sem talaði hér um að fyrirspurnum hefði ekki verið svarað og ég kannaðist við eina fyrirspurnina. Það er þannig að hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir taldi upp fyrirspurn um búsetumál geðfatlaða og fór yfir það að í þrjá mánuði hefði ráðherra ekki svarað þeirri fyrirspurn. Það var þannig, virðulegi forseti, að fyrirspurninni var dreift 31. október. Það kom beiðni frá þinginu um að svara fyrirspurn 6. nóvember og daginn eftir, 7. nóvember, kom það svar úr félagsmálaráðuneytinu að hæstv. félagsmálaráðherra væri reiðubúinn að svara þeirri fyrirspurn.

Ég vildi kveðja mér hljóðs til að segja að það er lágmarkskrafa að rétt sé farið með og það er ekki sanngjarnt að skella skuldinni á ráðherra því að við vitum að stundum eru þeir líka reiðubúnir að svara og hv. þingmenn hafa gilda ástæðu fyrir því að hafa ekki getað verið á svæðinu. Ég vil bara að rétt sé farið með.

Virðulegi forseti. Ég held að við ættum að halda umræðunni áfram til að fleiri mál fari að komast á dagskrá. Hér hafa hv. þingmenn rætt um málefni Byrgisins. Fjárlaganefnd mun fjalla um málið í fyrramálið og hv. félagsmálanefnd hefur einnig verið boðið að vera á þeim fundi. Ég held að það sé í góðum farvegi en, eins og ég segi, forseti stjórnar þinghaldinu í samræmi við það samkomulag sem gert var fyrir jól og ég held að við ættum að fara að klára þetta mál til að koma öðrum málum á dagskrá.