133. löggjafarþing — 53. fundur,  17. jan. 2007.

ummæli forseta í hádegisfréttum.

[13:30]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég reyndi að ná í hinn kjörna forseta Alþingis, Sólveigu Pétursdóttur, áðan til að biðja hana að vera viðstadda hér í upphafi fundar eftir hlé vegna þess að ég hygðist taka til máls um fundarstjórn forseta, þ.e. vegna ummæla hv. þm. Sólveigar Pétursdóttur, forseta þingsins, í hádegisfréttum Stöðvar 2. Þar hafði hún það til mála að leggja, vegna þeirrar umræðu sem hér færi fram, að breyta þyrfti þingsköpum, það þyrfti að takmarka ræðutíma þingmanna, þetta væri alveg ómögulegt því að það væri ekki í neinu öðru landi sem það leyfðist að þingmenn gætu bara leyft sér að tala óáreittir í þinginu um hin og þessi mál. Þetta væri ráðið og lausnin á vanda þingsins.

Þegar forseti þings var fyrst kjörin, sú sem nú er kjörin, Sólveig Pétursdóttir, hafði hún tvennt að segja sem hlustað var eftir hér í þingsal. Annars vegar talaði hún um að skipa ætti störfum þingsins með þeim hætti að þau væru fjölskylduvænni, þau væru betri fyrir þá þingmenn sem væru barnafólk, mæður og feður barna á þeim aldri að fyrir þeim þarf að sjá, og aðra þingmenn væntanlega. Hins vegar talaði hún um að ná þyrfti betri starfsanda og betri starfsreglum og starfsháttum á þinginu.

Sólveig Pétursdóttir, forseti Alþingis, held ég að sé fremst í þeim flokki sem á að gera sér grein fyrir að ekki er hægt að tala um reglur í þingsköpum eða starfsreglur á þinginu þannig að hægt sé að tala um eina í einu. Þær mynda ákveðna samfellu, þær eru í ákveðnu samhengi. Það verður að minna á í tilefni þessara ummæla að stjórnarandstæðingar hafa fyrr og síðar rætt um að til þess að ná betri starfsanda á þinginu og starfsháttum þyrfti auðvitað að auka sjálfstæði þingsins og þar með að gefa stjórnarandstöðunni ákveðna möguleika sem ekki eru fyrir hendi á þessu þingi en eru fyrir hendi í flestum öðrum þingum sem forseti vitnaði til í hádegisfréttum Stöðvar 2. Ég vona að forseti heyri til mín, hún hefur a.m.k. fengið þau skilaboð sem um er að ræða. Þar á meðal er það að þingmál stjórnarandstæðinga og raunar allra þingmanna komist á dagskrá, fái hér umræðu og afgreiðslu. Þar á meðal eru kröfur um að þingnefndir fái rannsóknarvald og þingið geti kosið sérstakar rannsóknarnefndir. Þar á meðal eru óskir og tillögur um að auka ráðherraábyrgð og fleira sem gæti skapað stjórnarandstöðunni meira eftirlit með framkvæmdarvaldinu og þingmönnum öllum, gert sjálfstæði þingsins öflugra. Ef þetta væri komið skyldum við fara að tala um ræðutíma við 2. og 3. umr. um stjórnarfrumvörp.