133. löggjafarþing — 53. fundur,  17. jan. 2007.

ummæli forseta í hádegisfréttum.

[13:33]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég heyrði ekki þau orð sem síðasti ræðumaður vitnaði í að höfð hefðu verið eftir forseta þingsins í hádeginu. Ef rétt er get ég sannarlega tekið undir með hv. þingmanni að það er ekki lausn á vanda þingsins að takmarka algjörlega ræðutíma. Það skal koma hér fram af minni hálfu sem margoft hefur komið fram að ég held að löggjafarvaldið sé mjög undirgefið framkvæmdarvaldinu. Ég held að það þekkist raunverulega hvergi í nálægum þingum hvað framkvæmdarvaldið ræður mikið ferðinni á þinginu.

Við höfum sagt það við endurskoðun þingskapa sem lengi hefur staðið yfir að við værum tilbúin að takmarka ræðutíma en það er þó skilyrt því að menn séu tilbúnir að taka á öðrum mikilvægum þáttum í störfum þingsins. Við teljum t.d. að koma þurfi hér á, eins og er í öllum siðuðum þingum, rannsóknarnefndum þingsins, nefndum sem gætu starfað t.d. fyrir opnum tjöldum, að ráðherrum sé gert að mæta fyrir þingnefndir ef þær svo óska og sitja fyrir svörum og rannsóknarnefndir fái vald eins og gerist í öðrum sambærilegum þingum til að rannsaka mál.

Þetta þarf allt að koma til og auðvitað þarf þingið líka að starfa allt árið eins og gert er í flestum þingum en ekki eins gloppótt og þingið starfar hér. Hér þarf líka að herða lög um ráðherraábyrgð, að ráðherra geti ekki hagað sér að vild og leynt Alþingi upplýsingum eða sett fyrir Alþingi rangar eða villandi upplýsingar. Í danska þinginu varðar það t.d. við lög um ráðherraábyrgð ef ráðherra hagar sér með þeim hætti en hér fá ráðherrar að haga sér alveg eins og þeir vilja. Í ofanálag fá þeir að stjórna þinginu.

Það er mjög margt í þingsköpunum sem þarf að taka fyrir og það er alls ekki lausn á þeim vanda sem ég tek undir að þingið stendur frammi fyrir að takmarka ræðutíma. Það er ekki hægt að einangra það eitt og sér. Við í Samfylkingunni erum tilbúin að taka á málinu heildstætt, t.d. með þeim leiðum sem ég nefndi. Við værum sannarlega tilbúin að takmarka ræðutímann ef annað fengist í gegn, en það hefur bara ekki fengist.

Þetta er raunverulega eina tækið sem þingmenn hafa, þ.e. að standa í ræðustól og mótmæla ef á rétt þeirra er gengið sem oft og iðulega er hér í þinginu, m.a. í því máli sem nú hefur lengi verið í umræðu á Alþingi. Þetta er eina tækið sem þingmenn hafa. Ég skora á forseta þingsins, og ekki mun standa á okkur í Samfylkingunni, að drífa sig í að fara í þingsköpin, fara heildstætt í þau en horfa ekki bara einskorðað á ræðutímann (Forseti hringir.) vegna þess að ekki er rétt að gera það með þeim hætti.