133. löggjafarþing — 53. fundur,  17. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[14:43]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er beinlínis dapurlegt að hlusta á þá sjálfsblekkingu sem þingmenn Framsóknarflokksins eru greinilega haldnir. Mér finnst dapurlegt að sjá hina ungu og efnilegu þingmenn Framsóknarflokksins fasta eins og viðkvæm, nýfædd folöld í mýri þessarar sömu sjálfsblekkingar. Hér talar hv. þingmaður um stefnu Framsóknarflokksins og frábiður sér það eiginlega að aðrir menn leyfi sér að mæla hana á þeim kvarða sem stefnan er. Hv. þingmaður las upp stefnu sem samþykkt var á flokksþingi Framsóknar árið 2005.

Má ég lesa, með leyfi forseta, úr stefnu flokksins frá flokksþingi 1999 þar sem segir:

„Allar rásir Ríkisútvarpsins verði áfram í ríkiseigu og því verði ekki breytt í hlutafélag.“

Má ég lesa upp, með leyfi hæstv. forseta, ályktun flokksþings 2003:

„Breyta skal rekstrarformi Ríkisútvarpsins í sjálfseignarstofnun …“

Frú forseti. Svo kemur hv. þingmaður og les upp nýjustu útgáfuna frá árinu 2005 sem er staðfesting og sönnun á því sem við höfum haldið hér fram, að það er búið að svínbeygja Framsóknarflokkinn þannig að hann er allur í einum keng. Ástæðan fyrir því að flokkurinn er rúinn fylgi, búið að tæta af honum trúnaðinn, búið að tæta af honum a.m.k. hálfan þingflokkinn miðað við kannanir, er nákvæmlega það að flokkurinn er ekki trúr hugsjónum sínum. Hann svíkur þær. Hann stendur ekki við þau loforð sem hann gefur þjóðinni. (Gripið fram í.) Það eru skýringarnar sem eru á því að flokkurinn er lentur í þessari þungu stöðu.

Frú forseti. Af hverju tekur Framsóknarflokkurinn að sér það hlutverk að keyra þetta mál í gegn af miklu meira offorsi en þingmenn flokksins? Nú hafa helmingi fleiri þingmenn Framsóknar mælt fyrir málinu í þessari umræðu (Forseti hringir.) og talað samtals sjö sinnum lengur en þingmenn Sjálfstæðisflokksins. Ég spyr: Af hverju?