133. löggjafarþing — 53. fundur,  17. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[20:55]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson segir í síðasta andsvari sínu að það sé vilji allra stjórnmálaflokka sem eiga þingmenn á Alþingi að bæta eða lagfæra rekstrarumhverfi Ríkisútvarpsins. Þetta er rétt. Hins vegar hafa ríkisstjórnarflokkarnir því miður ekki borið gæfu til þess að setjast niður með stjórnarandstöðuflokkunum og ræða á hvern hátt við getum náð sameiginlegri niðurstöðu í þeim efnum en það tilboð hefur alltaf staðið til boða því fólki sem situr hér fyrir stjórnarflokkana á Alþingi.

Hv. þingmaður talaði lengi um varaformann Samfylkingarinnar, um það hvernig hann hefði talað frá hjartanu og hann var í frammíkalli hvattur til að tala frá hjartanu sjálfur og það gerði hann því hann sagði: Meginmarkmið frumvarpsins er að breyta ríkisstofnuninni Ríkisútvarpinu í hlutafélag. Þetta er kjarni málsins og nú spyr ég hv. þingmann: (Forseti hringir.) Er það ekki til þess að það verði auðveldara að selja það, sem er hjartans mál þingmannsins?