133. löggjafarþing — 54. fundur,  18. jan. 2007.

lífeyrisréttindi starfsmanna RÚV – málefni Byrgisins.

[10:49]
Hlusta

Hlynur Hallsson (Vg):

Frú forseti. Ekki ætti neinum að dyljast að störf þingsins eru í fullkominni upplausn. Því er haldið fram af formanni menntamálanefndar að það sé stjórnarandstöðunni að kenna. Ég veit ekki til þess að stjórnarandstaðan stjórni störfum þingsins. Þannig er það ekki, því miður. Það væri nefnilega miklu skárra. Ef einhver almennileg stjórn ætti að komast á væru gerðar málamiðlanir og það er það sem við höfum allan tímann talað um, að vel væri hægt að semja um mjög mikilvæg mál, t.d. Ríkisútvarpið. Hvað eftir annað hefur verið slegið á útrétta sáttarhönd og ég veit ekki, frú forseti, um þær ástæður sem liggja þar að baki og ætla ekki að fara að velta þeim frekar fyrir mér.

Frú forseti. Það eru stór mál sem er knýjandi að séu rædd hér í þingnefndum og á þinginu. Byrgið er eitt þeirra. Nýjar upplýsingar um starfsmannamál og skerðingu á réttindum starfsmanna Ríkisútvarpsins er annað, mjög mikilvægt mál sem ekki er hægt að ýta til hliðar og láta ósvarað, hæstv. menntamálaráðherra. Ég biðst undan því að hæstv. menntamálaráðherra setji hér einhverja mælikvarða og merkimiða á mikilvægi mála og haldi því fram að Kárahnjúkavirkjun sé minni — það mál allt sé eitthvað neðar í virðingarstiganum (Forseti hringir.) og minna mikilvægt en t.d. Ríkisútvarpið ohf. (Forseti hringir.) Vinstri hreyfingin – grænt framboð (Forseti hringir.) er eini flokkurinn (Forseti hringir.) sem stóð í lappirnar í því máli, frú forseti.