133. löggjafarþing — 54. fundur,  18. jan. 2007.

málefni Byrgisins, þinghaldið fram undan o.fl.

[11:42]
Hlusta

Forseti (Sólveig Pétursdóttir):

Vegna þessara orða hv. þingmanns vill forseti taka það fram að í fréttatíma Stöðvar 2 í hádeginu í gær var spilaður stuttur bútur úr lengra viðtali sem fréttamaður stöðvarinnar átti við mig um störf Alþingis þessa dagana.

Fréttamaður spurði mig hvort svona uppákoma, eins og hann kallaði það, þ.e. margra daga umræða, 3. umr., um eitt þingmál yki virðingu Alþingis hjá þjóðinni. Ég sagði nei. En í svarinu minnti ég jafnframt á að við þessu væri lítið að gera eins og þingsköpum væri háttað, en þeim vildi ég breyta.

Eftir hádegi í gær voru þessi ummæli mín gerð að sérstöku umræðuefni undir því ákvæði þingskapa sem heitir um fundarstjórn forseta. Ég var þá stödd utan þinghúss með nokkrum öðrum alþingismönnum í erindum Alþingis og varð því ekki til svara. (Gripið fram í.) Mér kom það nokkuð á óvart að þingmaður skyldi finna sig knúinn til að fara hér upp í ræðustólinn til að gera þetta viðtal að umtalsefni hér á þinginu. (Gripið fram í.)

Ég hef mörgum sinnum áður lýst þeirri skoðun minni að setja ætti umræðum á Alþingi einhverjar skynsamlegar og sanngjarnar skorður. Það hef ég gert opinberlega síðan ég var kjörin forseti og margoft tekið það mál til umræðu á fundi með fulltrúum þingflokkanna í þeirri vinnu sem fram fer um endurskoðun þingskapa. Ég er ekki ein um þá skoðun. Ég held að hún njóti mikils stuðnings hér á Alþingi.

Vorið 1999 var lagt fram frumvarp þingmanna úr öllum flokkum, en þá var forseti Ólafur G. Einarsson og varaforsetar fjórir sem með honum störfuðu úr öllum flokkum. Því miður tókst ekki að ljúka afgreiðslu þess máls þá. Þar voru m.a. ákvæði um ræðutíma sem ég held að allir sanngjarnir menn hljóti að sætta sig við.

Við höfum fikrað okkur áleiðis á þeirri braut að koma umræðum hér á Alþingi í skynsamlegar skorður sem væru okkur til sóma. Það gildir t.d. um mikilvægar umræður hér á þinginu um þau mál sem efst eru á baugi í samfélaginu hverju sinni. Ég á þar við umræður utan dagskrár. Ég veit ekki betur en að allir séu sæmilega ánægðir með það fyrirkomulag og er þó ræðutími þingmanna mjög knappur.

Sannleikurinn er sá að alls staðar í kringum okkur í þjóðþingum sem við berum okkur saman við í Evrópu eru menn fyrir löngu búnir að koma einhverju skikki á fyrirkomulag umræðna í þingunum þannig að þær séu efnislegar og hnitmiðaðar en ekki notaðar til að tefja afgreiðslu máls eða til að knýja meiri hlutann til breytinga á málum.

Enginn fagnar meira líflegum og skemmtilegum umræðum á Alþingi en forseti. Skiptir ekki máli þótt þær taki einhvern tíma, en margra klukkustunda ræður, t.d. við 3. umr. máls, eru af öðru tagi.

Ég vil að það komi jafnframt fram að ég hef, eins og margir aðrir þingmenn, bæði úr stjórnarflokkum og stjórnarandstöðu, viljað sjá breytingar á þingsköpum um ræðutíma í samhengi við aðrar breytingar á störfum þingsins. Ég hef kynnt sjónarmið mín í þeim efnum í vinnunefndinni um þingsköp. Breytingar á ræðutíma eiga ekki að vera til að raska stöðu stjórnar og stjórnarandstöðu, heldur til þess að bæta vinnulagið hér í þinginu.

Sú umræða sem nú fer fram um dagskrármálið er hins vegar í samræmi við samkomulag sem við gerðum um afgreiðslu mála fyrir jól. Ég geri því ekki athugasemdir við það þótt umræðan dragist. Það vissum við fyrir fram. En það breytir ekki þeirri skoðun minni að þetta er ekki gott verklag.