133. löggjafarþing — 58. fundur,  23. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[14:33]
Hlusta

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Tillagan sem hér er flutt er tillaga sem stjórnarandstaðan flytur hér til þrautavara, til þess að freista þess að ná sæmilegri samstöðu um málefni Ríkisútvarpsins í lokahnykk þessa máls.

Það eru mér mikil vonbrigði að enginn hljómgrunnur hafi verið fyrir því hjá forustu ríkisstjórnarflokkanna að reyna að ná víðtækri samstöðu um Ríkisútvarpið. Miklu veldur sá er upphafinu veldur. Ég verð að játa að hæstv. menntamálaráðherra hefur ekki stækkað af þessu máli sem hún á mikinn þátt í að fór í þann deilufarveg sem raun ber vitni.

Ég hef fulla trú, virðulegi forseti, á að það hefði verið hægt að ná sátt um málið ef stjórnarandstaðan og aðrir hefðu fengið að koma að stefnumótun og undirbúningi frumvarps um Ríkisútvarpið. Því var ekki að heilsa. Þess vegna er þessi mikla deila um Ríkisútvarpið og þess vegna er búið að rjúfa þann frið sem ríkt hefur um stofnunina um (Forseti hringir.) áratugi.