133. löggjafarþing — 58. fundur,  23. jan. 2007.

auglýsingar um fjárhættuspil.

[15:32]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég held að ekki sé eins erfitt og margir hyggja að stemma stigu við þessari starfsemi með því að hýsa henni út úr okkar húsi, banna hana. Norðmenn eru að gera þetta núna með spilakassana, tilneyddir. Hægt er að reisa þær skorður líka á netinu og við eigum hiklaust að gera það eftir því sem kostur er.

Ég þakka fyrir þessa umræðu. Það er mikill samhljómur í henni. Við hæstv. dómsmálaráðherra vil ég segja að mér þótti gott að heyra að í marslok á liðnu ári skuli dómsmálaráðuneytið hafa brugðist við ólöglegum auglýsingum Betssons.

Ég tel að við eigum að höfða til fyrirtækja, ekki bara um lagalegar skyldur heldur einnig siðferðilega ábyrgð. Ég er ekki kunnugur tæknilegum hliðum þessa máls en vísa aftur í greinargerð sem er að finna á heimasíðu áhugafólks um spilafíkn þar sem Finnur Hrafn Jónsson, sem er verkfræðingur og tölvunarfræðingur með 20 ára reynslu af hugbúnaðargerð, gerir grein fyrir leiðum sem fara má í þessu efni. Að þessu þarf að sjálfsögðu að hyggja.

Síðan er að virkja jákvæðan vilja sem er á Alþingi. Þetta er þverpólitískt mál. Þetta tekur til allra flokka. Hér hafa verið flutt mál á undanförnum árum og ég vísa t.d. í málflutning hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur um þetta efni, til langs tíma, í mörg ár. Og þingmenn úr öllum flokkum á þingi hafa lýst vilja til að taka á þessum alvarlega vanda.

Ég bið hæstv. ráðherra að íhuga hvort ekki væri ástæða til að kalla saman nefnd sérfræðinga, m.a. frá bönkum og kortafyrirtækjum, ekki bara til að ræða við þá (Forseti hringir.) um lagalegar hliðar málsins heldur virkja ábyrgðarkennd þeirra aðila til að finna lausnir.