133. löggjafarþing — 58. fundur,  23. jan. 2007.

Vatnajökulsþjóðgarður.

395. mál
[16:38]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Eins og kom fram hjá hv. þingmanni vorum við nokkrir þingmenn í sérstakri nefnd á vegum þáverandi hæstv. umhverfisráðherra sem mótuðum tillögur að mörkum og reyndar líka vísi að stjórnsýslu á þeim svæðum sem þjóðgarðurinn á að taka yfir. Ég vil, eins og hv. þingmaður sem talaði á undan, segja að ég er mjög hlynntur því að menn ráðist í það verk að móta og mynda þennan mikla þjóðgarð.

Ég set hins vegar fyrirvara við stjórnsýsluþátt frumvarpsins. Hv. þingmaður gat þess að uppi hefðu verið hugmyndir um að alþingismenn sætu í stjórn þjóðgarðsins. Ég vil að það komi skýrt fram af minni hálfu að hugsunin á bak við það, eins og stuðningur minn við þá hugmynd sem innan nefndarinnar var rædd og reifuð, grundvallaðist af því að þjóðgarðurinn er eign allra landsmanna.

Ég tel mikilvægt þess vegna að engir hlutar eða partar þjóðarinnar séu útilokaðir frá stjórn hans. Ég er þeirrar skoðunar í grundvallaratriðum að heimamenn eiga í vaxandi mæli og meira en nú er gert að koma að stjórn svæða af þessu tagi. Hins vegar er nauðsynlegt þegar um svona gríðarlega víðfeðmt svæði er að ræða að það sé enginn sem upplifi sig sem afskiptan frá því. Á suðvesturhorninu búa kannski um 65% þjóðarinnar og þetta er líka þjóðgarður þeirra. Þess vegna finnst mér mikilvægt að með einhverjum hætti komist það fólk líka að stjórnsýslu hans. Það var hugsunin á bak við stuðning minn á sínum tíma við hugmyndina varðandi þingmennina. Ég tek eftir því að sönnu að gert er ráð fyrir að fulltrúi umhverfis- og náttúruverndarsamtaka eigi fulltrúa þarna í stjórn. Jafnframt á umhverfisráðherra að skipa tvo fulltrúa.

Mig langar að spyrja hv. þingmann: Telur hún ekki að það væri við hæfi að þeir tveir fulltrúar kæmu úr röðum þéttbýlisins miðað við hvaðan allir hinir koma?