133. löggjafarþing — 59. fundur,  24. jan. 2007.

fjárveitingar til skógræktar.

504. mál
[13:59]
Hlusta

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Helgu Þorbergsdóttur fyrir þessa fyrirspurn og svar mitt við fyrirspurninni er eðlilega já. Raunar þyrfti svarið ekki að vera lengra.

En ég fagna því að í fyrirspurninni skuli það koma fram að á ráðherraferli mínum hef ég barist fyrir aukinni skógrækt í landinu og stigvaxandi framlögum í þann málaflokk. Hátt í 1.000 skógarbændur, hlýrra og byggilegra land, dýrmætara land, þetta hefur verið að gerast á síðustu árum ekki síst vegna skógræktarverkefnanna. Landið er dýrmætara og það er að breyta um svip.

Ég tel rétt að hér sé rifjað upp og haldið til haga þeirri ákvörðun núverandi ríkisstjórnarflokka að hefja markvissa og skipulagða skógrækt á Íslandi og helstu breytingar sem sú ákvörðun fól í sér.

Segja má að það ferli hafi hafist með nýskógrækt á bújörðum sem Skógrækt ríkisins styrkti og svo tilkomu héraðsskógaverkefnanna árið 1991. En ég fullyrði að samþykkt ríkisstjórnarinnar þann 18. desember 1996 um að verja 450 millj. kr. til fjögurra ára átaks í landgræðslu og skógrækt markaði tímamót í sögu skógræktar á Íslandi.

Árið 1997 voru Suðurlandsskógar stofnaðir og 1999 voru settir á fót Norðurlandsskógar, Vesturlandsskógar, Skjólskógar á Vestfjörðum og Austurlandsskógar.

Öll þessi verkefni hafa síðan vaxið og dafnað og eru nú raunverulega veigamikill þáttur í atvinnu- og búsetumálum um land allt. Þótt aðalmarkmið verkefnanna sé að rækta skóg hafa þau einnig önnur markmið, svo sem eflingu byggða og atvinnulífs, auðlindasköpun og bindingu á kolefni, eins og fram kom í máli hv. þingmanns.

Þá hafa í kjölfar verkefnanna opnast nýir möguleikar á störfum á landsbyggðinni fyrir háskólamenntað fólk sem vissulega var og er þörf á. Ætlunin er að rækta skóg á 5% af láglendi landsins á næsta 40 ára tímabili.

Þessi skógrækt, sem önnur hér á landi, byggist ekki hvað síst á farsælu 100 ára starfi Skógræktar ríkisins sem hefur með rannsóknum, tilraunum og gróðursetningum sannað að á Íslandi er hægt að rækta skóga.

Með tilkomu verkefnanna og þessu mikla skógræktarátaki breyttist óhjákvæmilega ýmislegt sem Skógrækt ríkisins hafði með höndum og má einkum tiltaka tvennt.

Dregið var úr gróðursetningu í lönd í eigu eða umsjá stofnunarinnar vegna samkeppnissjónarmiða og var Skógrækt ríkisins gert að hætta framleiðslu og sölu skógarplantna á almennum markaði. Skógræktin hefur aftur á móti enn sem fyrr viðamiklu hlutverki að gegna og má þar ekki síst nefna og benda á umsjón og uppbyggingu þjóðskóganna.

Ég vil taka það fram að stuðningur við skógrækt á sér hljómgrunn í öllum flokkum á Alþingi sem m.a. hefur komið fram í fjárveitingu til málaflokksins á síðustu árum. Hér hafa verið gerðar langtímaáætlanir, þingsályktanir um markmið skógræktarstarfsins og það fjármagn sem fer til þeirra verkefna.

Ég vil nefna hér, hæstv. forseti, að 1994 fóru 208 millj. kr. til skógræktarmála. Árið 2000 voru það 366 millj., árið 2003 634 millj. kr. og í fjárlögum þessa árs 756 millj. kr. Þannig að framlög til skógræktarmála hafa aldrei verið meiri en nú.

Auk þess fékk Skógræktarfélag Íslands á árunum 1999–2003 18 millj. kr. á hverju ári til landgræðsluskógræktarverkefnisins og 25 millj. kr. á ári síðan 2003. Enn má nefna að Landgræðsla ríkisins hefur fengið stighækkandi framlög til síns málaflokks og losar nú 500 millj. kr. á núverandi fjárlögum.

Mörg verkefni Landgræðslunnar tengjast skógrækt og er þar marktækast að nefna Hekluskógana þar sem ætlunin er að endurheimta birki í nágrenni eldfjallsins með það að markmiði að hefta gjósku ef til eldgoss kemur og gera svæðið búsældarlegra.

Ég vil þakka þessa fyrirspurn alveg sérstaklega. Ég held að það sé þjóðarvilji og þingvilji að skógræktin sé í höndum bændanna. Hún hefur verið að skila landinu miklu og kemur að stórum notum við kolefnisbindingu. Ég mun þess vegna, sem ráðherra, leggja því mitt lið hér á Alþingi Íslendinga að efla skógræktina enn frekar.