133. löggjafarþing — 60. fundur,  25. jan. 2007.

sameining Kennaraháskóla Íslands og Háskóla Íslands.

431. mál
[11:55]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég get ekki sagt annað en ég hafi orðið vör við örlitla kaldhæðni í upphafi máls hv. þingmanns en ég sé að það er ýmislegt á sig leggjandi til þess að fá þessa hlýju og birtu sem birtist í augum þessa ágæta manns og hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar. En hann leggur fram nokkrar spurningar sem mér finnst allrar athygli verðar og í rauninni brýnt að svara og ég mun hugsanlega koma betur að í seinni ræðu minni en það voru tvær spurningar sem ég greindi og skrifaði hjá mér.

Það er annars vegar hvað það er sem nemendur fá með sameiningunni. Ég tel að hún stuðli að því að fjölga tækifærum nemenda til að velja um námsframboð og námsleiðir. Það eru ólíkar deildir í þessum skólum og sérstaklega ætti þetta að auðvelda nemendum Háskóla Íslands aðgang að kennaramenntuninni og námsframboðinu sem er þá á sviði uppeldis- og menntunarfræða. Það er ekki síst það að við viljum í gegnum þessa sameiningu, það hefur oft verið talað um að við þurfum að efla sérgreinamenntunina eins og íslensku, ensku, dönsku og stærðfræði og þarna sjáum við aukin tækifæri. Það gera fagaðilarnir sérstaklega, þeir benda á að þarna séu tækifæri til að nýta krafta og sérstöðu beggja háskólanna til að efla enn kennaramenntunina. Við sjáum fram á auknar rannsóknir og samlegðaráhrif varðandi rannsóknarsviðin. Ég hef þegar talað um námsframboðið og það má segja að fjölbreytnin verði meiri varðandi kennaraframboðið sem slíkt.

Síðan er það hitt stóra atriðið sem mér finnst ágætt að hv. þingmaður kom inn á. Það er lenging kennaranámsins. Ég tek undir það með hv. þingmanni að við eigum að stefna að því að lengja kennaranámið. Ég tel hins vegar að sú sameining sem við erum að ræða hér muni stuðla að því að það verði auðveldara að leita úrræða og lausna til að finna þann farveg sem við beinum lengingu kennaramenntunarinnar í. (Forseti hringir.) Ég tel að þetta geti orðið mikill stuðningur við okkur, þá talsmenn sem erum reiðubúnir til að gera eitt og annað til að lengja kennaramenntunina, að þetta muni verða ákveðinn stuðningur við þann málflutning.