133. löggjafarþing — 61. fundur,  29. jan. 2007.

landsþing Frjálslynda flokksins og stefna í innflytjendamálum.

[15:15]
Hlusta

Guðjón Ólafur Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Í fyrri ræðu minni innti ég eftir því hvort hv. þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og Samfylkingarinnar ætluðu að styðja útlendingastefnu Frjálslynda flokksins í samstarfi stjórnarandstöðuflokkanna sem svo oft hefur verið talað um og menn gumað af. Hér hefur komið upp hver þingmaðurinn á fætur öðrum úr röðum stjórnarandstöðunnar en enginn, hæstv. forseti, hefur svarað þessari spurningu. Það liggur ekkert fyrir um það.

Það getur vel verið að Samfylkingin hafi góða stefnu í málefnum innflytjenda og málefnum útlendinga en það svarar ekki spurningunni hvort flokkurinn ætli að varpa þeirri stefnu fyrir róða til að leiða Frjálslynda flokkinn til valda í málefnum útlendinga.

Það hefði auðvitað verið sérstök ástæða til að ræða um þau ummæli Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, formanns Samfylkingarinnar, um að flokkurinn væri of pólitískur. Þess vegna væri fylgi hans svo lítið. Ég er hins vegar maður góðhjartaður og vorkenni hv. þm. Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur eftir Keflavíkurklúðrið víðfræga þar sem því var lýst yfir að almenningur treysti ekki þingmönnum Samfylkingarinnar, og það réttilega. Það er í sjálfu sér ástæðulaust að ræða það frekar, hæstv. forseti, hinn alræmdi guðfaðir Samfylkingarinnar, Jón Baldvin Hannibalsson, hefur þegar kveðið upp dauðadóminn yfir Samfylkingunni. Hann hefur sjálfur skrifað dánarvottorðið þannig að það er ástæðulaust að ræða frekar um Samfylkinguna í þessum efnum.