133. löggjafarþing — 62. fundur,  30. jan. 2007.

tekjuskattur.

53. mál
[18:06]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég hef löngun til að koma hér aðeins stutt í ræðustól til þess að lýsa yfir ánægju minni með þetta mál sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir hefur lagt fram og mælt fyrir af skörungsskap. Margar mjög góðar og gagnlegar upplýsingar komu fram í máli hennar og koma fram í greinargerð með frumvarpinu, upplýsingar sem eru þess virði að haldið sé á lofti. Ég tel nauðsynlegt að hrakin séu þau ósannindi sem stjórnarliðar fóru hér með í umræðunni í gær um fátækt barna þegar þeir berja sér á brjóst og segjast hafa verið að hækka barnabætur. Í máli hv. þingmanns kemur fram að hækkunin er eingöngu núna á milli áranna 2006 og 2007. Mér þykir það alvarlegt á hvern hátt stjórnarliðar leyfðu sér í umræðunni í gær að skrumskæla veruleikann og bregðast ekki við þeim staðreyndum sem hv. þingmaður hefur lagt fyrir okkur.

Það er alvarlegt þegar við horfum á þessar tölur að barnabæturnar skuli skerðast við 77 þús. kr. þegar lágmarkslaun eru komin í alla vega á milli 90 og 100 þús. kr. (Gripið fram í.) 125 þús. kr. Þá er það náttúrlega sýnu alvarlegra að barnabæturnar hjá einstæðum foreldrum skuli byrja að skerðast við þessi lágu mörk. Fullyrðingar þess efnis að ekkert land greiði jafnlágar barnabætur og Íslendingar og að hvergi séu jafnharkalegar tekjutengingar eru líka alvarlegar. Ég þekki það af reynslu minni að hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir fer vel ofan í sín mál og hennar greinargerðir eru góðar og vel ígrundaðar. Ég tel því að hér séu alvarlegar yfirlýsingar á ferðinni sem þessi ríkisstjórn verður auðvitað að bregðast við. Hún verður að svara í einhverju því sem kemur fram því að fullyrðingar þeirra eru afhjúpaðar með þeim staðreyndum sem hér eru upp taldar og studdar rökum.

Heildarkostnaðurinn við þessa breytingu yrði 1,6 milljarðar kr. Það er ekki há upphæð þegar hlustað er á fréttir þessa dagana um gróða bankanna. Landsbankinn græddi 40 milljarða eftir skatta á síðasta ári. Kaupþing græddi 82 milljarða eftir skatta á síðasta ári og Glitnir græddi einhverja tugi milljarða líka.

Ég spyr því: Hvaða ábyrgð er þessi ríkisstjórn að flýja þegar hún leyfir sér að veigra sér við því að hækka barnabæturnar sem þessu nemur? Það er ekki forsvaranlegt að flýja undan þeirri áskorun sem kemur fram í þessu þingmáli.

Ég vil bara ítreka að ég lýsi yfir stuðningi við þetta mál. Þetta er eitt af brýnu málunum til þess að velferðarkerfið okkar geti staðið undir nafni. Ég veit að þetta kemur til með að verða áberandi í málflutningi stjórnarandstöðunnar í kosningabaráttunni og ég trúi ekki öðru en að við náum eyrum þjóðarinnar.

Að lokum svara ég spurningu hv. þingmanns sem hún lagði fram hér við lok síns máls þegar hún spurði hvort ekki væri kominn tími til að losna við þessa ríkisstjórn. Hæstv. forseti. Mitt svar er: Jú, það er kominn tími til að losna við þessa ríkisstjórn.